Fjölmiðlar eru að pólaríserast. Eins og stjórnmálin.
Sumir stjórnmálaflokkar fiska kerfisbundið í gruggugu vatni. Reyna að veiða atkvæði með popúlisma og óvönduðum málflutningi. Þeir spila inn á tilfinningar þeirra þjóðfélagshópa sem hafa ekki bjargir til að greina skrum frá kjarna mála. Ala á ótta og fáfræði.
Sama á við um fjölmiðla. Í stað þess að hver og einn fjölmiðill hér á landi líti á það sem skyldu sína að höfða til upplýstra lesenda (eða sem er enn betra, gera þá upplýstari með blaðamennskunni) hefur markaðsvæðingin orðið til þess að æsingurinn, ómennskan og aulaskapurinn flokkast undir söluvöru sem kerfisbundið er sett á dagskrá.
Æpandi dæmi eru um þetta nú í vikunni. Einn vefmiðill birti kennitölur og trúnaðarupplýsingar í kynferðisbrotamáli á viðkvæmasta stigi. Upplýsingunum var eytt út af vefsíðunni eftir 20 mínútur. Ófullkomin afsökunarbeiðni fylgdi. Skaðinn eigi að síður skeður og getur stórspillt leitinni að réttlætinu. Hvað annað en smelligræðgi eða fullkomin fáfræði getur útskýrt svona blaðamennsku? Þökk sé Ríkisútvarpinu sem upplýsti um þetta.
Degi fyrr gerði annar vefmiðill frétt um blaðamann á enn öðrum vefmiðli sem hafði tekið óvenju greddulegt og ég leyfi mér að segja ósmekklegt viðtal við mann sem naut nafnleyndar. Maðurinn sagðist hafa farið í orgíu með uppáhaldsklámmyndaleikkonunni sinni. Þegar blaðamaðurinn sem segist hafa tekið viðtalið var spurður út í „fréttina“ var hún fljót að segja að greinin hefði fengið metlestur, 60.000 manns hefðu lesið.
Aðsókn virðist helsti mælikvarðinn á árangur í huga þeirra sem annað hvort hafa ekki reynslu eða þekkingu til að vita um hvað mikilvæg blaðamennska snýst eða láta þau gildi hreinlega sem vind um eyru þjóta. Að „púlla“ sem mesta aðsókn, að geta selt auglýsingar út á aðsóknina virðist keppikeflið hjá æ fleiri miðlum. Halda mætti fram að sumir íslenskir miðlar hreinlega raðskíti á sig af ásetningi. Kannski vegna þess að raðskita getur aukið umræðu og aðsókn. En þetta er ekki sjálbært ferli til framtíðar. Fyrr eða síðar mun þorri landsmanna snúa baki við heimskunni og skruminu. Húsameistari ríkisins! Ekki meir, ekki meir! Sagði Steinn Steinarr.
Því skal þó haldið til haga að vinnubrögð eru í flestum tilvikum til fyrirmyndar á vefmiðlum líkt og rúv, mbl.is, visir.is, Stundinni og Kjarnanum. Fleiri dæmi mætti nefna. En það væri til lítils að skemmta skrattanum með því að telja upp þá sem fylla hinn hópinn. Það yrði sennilega til þess eins að þeir myndu gera frétt um það – og slá sér upp á því!
(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)