Nýr og breyttur veruleiki blasir við á húsnæðismarkaðnum á Íslandi, en á sama tíma og æ færri landsmenn velja sér framtíðarhúsnæði í meðalstórum og stórum einbýlishúsum með víðáttumiklum garði fjölgar þeim ört sem horfa á fjölbýli sem framtíðarheimili.
Og fjölbýlishúsin eru ekki lengur neinar venjulegar blokkir með tveimur eða þremur stigagöngum heldur risastór samfélög á íslenskan mælikvarða, oft og tíðum með 150 íbúðum, eða liðlega fimmhundruð íbúum á öllum aldri sem er jafngildi meðalstórs kauptúns hér á landi. Þessar stóru sameignir skiptast oft í sjálfstæðar minni einingar og þá er þjónustan orðin mjög mikil í þessum húsakosti, jafnvel tæknilega flókin og því ofviða venjulegu heimilisfólki.
Allt kallar þetta á nýjar lausnir við stjórn húsfélaga eins og vel kemur fram í máli Páls Þ. Ármann, markaðsstjóra Eignaumsjónar sem er gestur Afsals að þessu sinni, en hann fer þar gjörla yfir það flækjustig sem blasir við húsfélagsstjórnum stórra fjölbýla. Þáttinn má nú sjá undir flipanum sjónvarp á vef stöðvarinnar.
Búsetuúrræðin eru líka til umfjöllunar í þættinum, en Gísli Örn Bjarnhéðinsson mætir í myndverið til að fræða áhorfendur um kosti og galla þess að fara millileiðina í húsnæðismálum, eiga bæði og leigja, en æ stærri hópur fólks, jafnt ungt og eldra, kýs að nota tíma sinn og peninga í annað en hefðbundna séreign.
Afsal er frumsýnt öll miðvikudagskvöld klukkan 20:30.