Fjögurra barna móðir á tæplega 15 þúsund krónur til þess að lifa af hvern mánuð: „Dugar ekki einu sinni fyrir nauðsynjum“

„Ég er öryrki sem ákvað að fara á vinnumarkaðinn árið 2017 – 2018 og hreinlega vann yfir mig. Ég skilaði tekjuáætlunum með rúmum tekjum reglulega en samt sem áður kom ég út í rúmri milljón í skuld bæði árin.“

Þetta segir móðir í samtali við Hringbraut sem kýs að koma ekki fram undir nafni vegna barna sinna. Við skulum kalla hana Anna.

„Nú ákvað TR að þeir ætla að draga af mér rúmlega 100 þúsund krónur á mánuði næstu 12 mánuði sem þýðir það að ég fæ um 180 þúsund útborgað með meðlagi. Ég borga 165 þúsund krónur í leigu og fæ ekki húsaleigubætur vegna þess að leigusalinn minn laug því að mér að íbúðin væri samþykkt þótt hún sé það ekki,“ segir Anna sem er miður sín yfir ástandinu.

„Ég er svo sannarlega ekki ein í þessari stöðu og þetta þýðir að næstu 12 mánuði sé ég fram á að hafa ekkert til þess að lifa á og safna öðrum skuldum þar sem greiðslan frá TR dugar ekki einu sinni fyrir nauðsynjum,“ segir Anna og bætir því við að hún sé fjögurra barna móðir.

Vill fá að vita hvort ráðamenn þjóðarinnar gætu lifað af á sömu launum

„Það eru að koma jól og ég á fjögur börn. Eitt með lögheimili hjá mér en þrjú sem ég er með 40% af mánuðinum. Mér finnst þetta svo ómannúðlegt og sorglegt. Það væri gaman að vita hvort ráðamenn þjóðarinnar gætu lifað á 180 þúsund krónum á mánuði,“ segir hún og tekur það fram að hún muni að sjálfsögðu kæra úrskurðinn.

„Ég hef of háar tekjur til þess að fá aðstoð frá hjálparstarfi vegna þess að það er horft á heildartekjur mínar en ekki hvað ég fæ útborgað. Ég er ekki að biðja um ölmusu heldur vil ég vekja athygli á því hvernig komið er fram við tekjulægsta fólkið í landinu.“