Fjögur mislingasmit hafa verið staðfest hérlendis á skömmum tíma, þar af tvö börn sem ekki eru orðin 18 mánaða og því ekki búin að fá bólusetningu. Tilfellin fjögur eru rakin til ferðamanns sem var smitaður af mislingum og kom frá Lundúnum til Íslands um miðjan febrúar. Hann flaug svo til Egilsstaða og í því flugi smituðust börnin tvö. Kjarninn og Fréttablaðið eru meðal þeirra sem greina frá.
Samkvæmt Fréttablaðinu er um að ræða mesta fjölda tilfella smita síðan árið 1977. Mikill viðbúnaður er á Landspítalanum og telur Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðadeildar Landspítalans að plássleysi gæti valdið erfiðleikum, smitist fleiri af mislingum.
Boðað til neyðarfundar
„Boðað var til neyðarfundar með sóttvarnalækni vegna þeirrar stöðu sem uppi er núna vegna mislingasmita sem hafa verið staðfest. Sóttvarnalæknir stýrir ákveðnum aðgerðum til að bregðast við og varna frekari útbreiðslu,“ segir Jón Magnús í samtali við Fréttablaðið.
Mislingar eru sem kunnugt er bráðsmitandi og geta þeir sem hafa ekki bólusetningu átt á hættu að veikjast illa og lífshættulega. Mislingar greindust síðast hér á landi árið 2017, í barni sem hafði dvalið erlendis lengi. Á árunum 1998 til 2017 höfðu aðeins þrjú tilfelli komið upp og því teljast fjögur staðfest tilvik á skömmum tíma talsvert mikið í landi þar sem um 90 prósent Íslendinga eru með bólusetningu við mislingum.
Bólusetning við mislingum fer yfirleitt fram við 18 mánaða aldur.
Ekkert bendi til að lítill faraldur sé í vændum
„Nú er unnið eftir ákveðnu verklagi en eins og staðan er núna er ekkert sem bendir til þess að lítill faraldur sé í vændum. Það gerist hins vegar að smitberi kemur til landsins sem sýnir okkur bæði hversu smitandi mislingar eru og hversu mikilvægt sé að sem flestir séu bólusettir fyrir mislingum,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við Fréttablaðið.