Sigmundur Ernir Rúnarson opnaði heimilið upp á gátt í nýjum þætti á Hringbraut sem frumsýndur var í gærkveldi. Sá þáttur heitir Heimili og er umræðuefnið allt það sem snýr að heimilinu, til dæmis fjármálin, fasteignakaupin, húsráðin og margt fleira.
Guttormur Árni Ársælsson, sérfræðingur hjá Meniga, var meðal gesta þáttarins en hann sagði að fjármál heimilisins væru um margt lík líkamsræktinni. Algengustu mistökin hjá fólki væru þau að setja sér ekki markmið og koma sér af stað. Þannig væru skýr merki um að hegðun fólks með heimilisbókhaldið er svipað og í ræktinni. Fólk fer í átak í upphafi árs og eftir sumarfrí, en síðan fer það að slaka á.
Í þættinum tók Guttormur dæmi um hvernig regluleg kaup á smærri hlutum, geta safnast saman í háar upphæðir á nokkurra ára tímabili. Sem dæmi nefndi Guttormur kaup á kaffibolla á leiðina í vinnuna þrisvar sinnum í viku. Ef kaffibollinn kostar 550 krónur, er þetta samtals 1 milljón króna á tíu ára tímabili. Margir gætu síðan yfirfært þetta dæmi yfir á ýmiss önnur kaup, s.s. nammi eða gos.
Hér eru nokkrar myndir úr tökum af fyrsta þættinum, en þátturinn er endursýndur í allan dag og aftur um helgina. Í næstu viku verður Heimilið á nýjum frumsýningartíma: Kl.20.00 á föstudagskvöldum.