Fjármálaeftirlitið (FME) rassskellti formann VR, Ragnar Þór Ingólfsson, með eftirminnilegum hætti þegar hann var snupraður fyrir glórulaus ummæli sín um að beita ætti lífeyrissjóðunum í verkfallsátökum.
Formaður VR kynnti í máli sínu ólögmætar aðgerðir. Hann vill láta brjóta lög um lífeyrissjóði og FME ávítaði hann fyrir það. Stjórnarmenn í lífeyrissjóðum lúta ekki boðvaldi þeirra samtaka eða hópa sem kjósa þá. Þeir vinna einungis samkvæmt lögum og lúta eigin samvisku. Þetta skilur Ragnar Þór greinilega ekki.
Stjórnarmenn lífeyrissjóða þurfa að ganga undir hæfispróf hjá FME til að fá heimild til að gegna stjórnarstörfum. Það fyrirkomulag hefur verið í gildi frá árinu 2010. Ljóst er að Ragnar Þór Ingólfsson stæðist ekki slíkt hæfispróf enda er forsenda þess að standast það að skilja og vilja virða lög og reglur. Það gerir hann greinilega ekki.
Skuggastjórnendur eins og formenn verkalýðsfélaga verða ekki liðnir hjá íslenskum lífeyrissjóðum. FME gætir þess.
Formaður VR málar sig sífellt lengra út í hornið. Félagsmenn hljóta að losa sig við hann í kosningum í byrjun næsta árs. VR-félagar eru engir bjánar og þeir hljóta að vakna núna.
Dramb er falli næst voru eftirmælin um Ólafíu Rafnsdóttur sem Ragnar felldi úr formannsstóli VR fyrir 2 árum.
Hver skyldu verða eftirmælin um Ragnar Þór þegar hann fellur eftir áramótin?
Tillaga: Farið hefur fé betra.
rtá.