Hlutafjárútboð Icelandair í síðustu viku er stórsigur fyrir félagið sjálft, starfsfólk þess, stjórnendur, atvinnulífið og þjóðina - að undanskildum þeim fáu sem reyndu að skemma fyrir.
Fram komu óskir um kaup á 37 milljörðum af nýju hlutafé en 23 milljarðar voru í boði.
Félagið tók tilboðum upp á 30 milljarða en hafnaði boði að fjárhæð sjö milljarðar króna frá bandarískri konu sem á að baki mjög sérkennilegan feril í viðskiptum. Með því sýndi stjórn Icelandair mikinn styrk.
Alls kaupa níu þúsund aðilar nýtt hlutafé. Með því verða hluthafar ellefu þúsund sem sýnir að mikill fjöldi virðir félagið og vill styðja það í gegnum storminn.
Þessi niðurstaða er einnig mjög hagstæð fyrir ríkisbankana sem höfðu skuldbundið sig til að sölutryggja sex milljarða í hlutafjárútboðinu en til þess kemur ekki.
Þá hlýtur fjármálaráðherra að vera létt vegna þessa mikla árangurs. Hann hefur talað fyrir stuðningi við félagið innan ríkisstjórnarinnar og þurft að beygja ráðherra VG til hlýðni en þar á bæ dreymdi fólk um að félagið endaði hjá ríkinu - og að Steingrímur J. Sigfússon yrði gerður að stjórnarformanni íslenska ríkisflugfélagsins!
Sá blauti draumur vinstri manna rætist ekki.
Mikla athygli vekur að Lífeyrissjóður verslunarmanna skyldi ekki kaupa hlutafé í þessu útboði. Sjóðurinn hefur verið lykilfjárfestir í félaginu síðustu 40 árin.
Helmingur stjórnar sjóðsins vildi kaupa hlutafé fyrir tvo til þrjá milljarða króna en fulltrúar VR kusu á móti því og þar með féll málið á jöfnum atkvæðum. Icelandair hefur verið stærsti greiðandi iðgjalda til sjóðsins í áratugi.
Öllum má vera ljóst að fulltrúar VR í stjórn sjóðsins hlýddu fyrirmælum formanns VR sem hefur haft í hótunum í allt sumar og lýst því yfir að fulltrúum VR í stjórn sjóðsins verði fyrirskipað að leggjast gegn kaupum á hlutafé í Icelandair. Að öðrum kosti yrði þeim skipt út úr stjórninni. Hér er um að ræða grímulausa skuggastjórnun sem er ólögmæt og skaðleg.
Fjármálaeftirlitið hefur varað Ragnar Þór Ingólfsson við svona háttsemi en hann lætur sér ekki segjast. Nú getur eftirlitið ekki látið þessi vinnubrögð formanns VR og útsendara hans viðgangast lengur. Fjármálaeftirlitið hefur rúmar heimildir til íhlutunar í lífeyrissjóðum þegar farið er á svig við reglur. Nú verður að ætlast til þess að heimildir verði nýttar til að setja fulltrúa VR af í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna og skipa í þeirra stað fólk sem getur unnið stjórnarstörf sín sjálfstætt og af fagmennsku.
Áminningar duga ekki lengur. Inngrip eftirlitsins er það eina sem skaðvaldarnir skilja.