Bæjarstjórn Seltjarnarness afgreiddi ársreikning bæjarins fyrir árið 2021 á fundi sínum í vikunni. Þar kom fram að halli á A-hluta rekstrarins nam 566 milljónum króna á árinu. Samanlagður halli á rekstri bæjarins frá árinu 2016 nemur nú 1.540 milljónum króna.
Samhliða þessari rekstrarþróun hefur bærinn safnað skuldum og kemur orðið verst út allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, mælt á alla fjárhagslega mælikvarða. Reykjavíkurborg stendur best í þeim samanburði, Garðabær kemur næstur og Kópavogur þar á eftir. Seltjarnarnes rekur lestina.
Átök hafa staðið í bæjarstjórn Seltjarnarness um fjárhæð útsvars. Sálfstæðisflokkurinn hefur lagt höfuðáherslu á að hafa útsvarið í sveitarfélaginu aðeins lægra en hjá nágrannasveitarfélögunum með þeirri afleiðingu af bærinn hefur ekki náð endum saman í mörg ár og safnað skuldum og tapi.
Frjálshyggjumenn í Sjálfstæðisflokknum hafa barist fyrir þessari innstæðulausu stefnu og haft sitt fram. Þar til fyrr í vetur að Bjarni Torfi Álfþórsson, einn af bæjarfulltrúum flokksins um árabil, treysti sér ekki til að taka þátt í þessari dauðastefnu lengur, gekk úr flokknum og tók höndum saman við aðra flokka á Nesinu sem ákváðu að hækka útsvarið í sama hundraðshluta og tíðkast í flestum nágrannabyggðarlögunum.
Um þessa stefnu er meðal annars kosið á morgun. Einnig er fráfarandi meirihluti gagnrýndur fyrir sleifarlag í leikskólamálum, rekstri grunnskólans, skipulagsmálum sem og vegna úthlutunar lóða fyrir nýjar íbúðir. Engin, ekki ein einasta, ný íbúð var byggð á Seltjarnarnesi á kjörtímabilinu sem er að ljúka. Mun það vera Íslandsmet!
Ásgerður Halldórsdóttir hefur stýrt Sjálfstæðisflokknum og verið bæjarstjóri á Nesinu hin síðari ár. Hún hverfur nú af þeim vettvangi og skilur eftir sig sorglega stöðu í þessu áhugaverða sveitarfélagi sem lengi státaði af öruggri fjármálastjórn, öflugri uppbyggingu og festu í stjórn bæjarins. Ekkert af þessu á við núna.
Á morgun verður kosið um það hvort Sjálfstæðisflokkurinn fær að stjórna áfram þrátt fyrir röð mistaka eða hvort Samfylkingin og Framtíðin taka við stjórn bæjarins og freista þess að koma honum á sigurbraut að nýju.
Nýtt fólk leiðir nú lista Sjálfstæðisflokksins og baráttusætið skipar einlægur Evrópusinni, Svana Helen Björnsdóttir. Talið er að mörgum Evópuandstæðingnum í Sjálfstæðisflokknum á Nesinu reynist erfitt að kjósa listann til að tryggja Evrópusinnanum sæti í bæjarstjórninni. En vandinn er sá að flokkurinn mun ekki halda meirihluta nema kosning Svönu verði tryggð. Á það hefur verið bent að hún er þýskmenntaður verkfræðingur, nákvæm eftir því og hefur aldrei sætt sig við lausatök í fjármálum eins og fráfarandi meirihluti hefur látið viðgangast á Nesinu hin síðari ár. Hún mun væntanlega gera kröfur um gjörbreytt vinnubrögð sjálfstæðismanna í bæjarstjórn, nái hún kosningu á morgun.
Takist íbúum Seltjarnarness að fella meirihluta Sjálfstæðisflokksins á morgun verða það mikil tíðindi því að flokkurinn hefur stjórnað bænum í 72. Augljós þreytumerki hafa hins vegar gert vart við sig eins og staðreyndir um rekstur og fjárhag sýna glögglega.
- Ólafur Arnarson