Óhætt er að segja að drjúgur hluti umræðu á Alþingi í dag um stöðuna í orkuframleiðslu landsins hafi hverfst um persónu Jóns Gunnarssonar, formanns atvinnuveganefndar. Sumir þingmenn minnihlutans töldu Jón persónugerving þeirrar sundrungar sem ríki á þingi og í samfélaginu um hvernig haga beri stefnu í orkumálum, flutningi á raforku og hverjir skuli njóta forgangs. Þá kom fram hjá fleiri en einum þingmanni að hagsmunir ferðaþjónustu og áhersla erlendra gesta á ósnortna náttúru sköruðust í sumum tilfellum við orkustefnu.
Jón Gunnarsson stóð fyrir umræðunni og var málshefjandi. Hann sagði það þyngra en tárum taki að þeir flokkar sem nú væru í minnihluta hefðu á síðasta kjörtímabili rofið sátt og þvælst fyrir uppbyggingu með pólitísku inngripi í Rammaáætlun. Segja mætti að 10 ár yrðu að líða að framkvæmd frá þeim tíma sem ákvörðun væri tekin um virkjanakost. Ekkert gengi að þokast áfram, illvígar deilur væru í málinu.
Jón ræddi sérstaklega að sveitarfélög út um allt land hefðu misst af atvinnu- og uppbyggingartækifærum vegna þess að ekki væri næg raforka til í landinu eða þá að flutningskerfi hennar væri ábótavant. Minni og fjölbreyttari kaupendur að raforku væru helstu sóknarfærin á þessu sviði. Vegna ákvarðana sem ríkisstjórnin hefði tekið á síðasta kjörtímabili vegna laga um rammaáætlun væri uppi pattstaða sem ylli gríðarlegu tjóni fyrir landið allt. Eitt dæmi um þetta væri að fyrirhuguð verksmiðja Silicor á Grundartanga yrði sennilega að engu, því sögur bærust nú um að forsvarsmenn þess verkefnis hefðu snúið sér til Noregs og Danmerkur vegna þess að raforkusala liggi ekki á lausu hér.
Næst talaði Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra og ítrekaði mikilvægi umræðunnar. Hún boðaði að hún myndi á næstu vikum leggja fram lögbundna skýrslu um raforkumál og kæmi þar fram ýmis fróðleikur.
Var þá komið að fulltrúm stjórnarandstöðunnar. Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar minnti á að raforka væri ekki ótakmörkuð auðlind hér á landi. Nú værum við komin með atvinnugrein, ferðaþjónustuna, sem keppti við orkuna og gerði ríka kröfu um að stór landsvæði haldist ósnortin. Katrín lýsti vonbrigðum sínum með að stöðugt væri verið að tefla sátt, byggðri á hlutlægu mat um hvar skuli virkjað og hvar ekki, í tvísýnu með boðuðuðm breytingum á rammaáætlun.
Lilja Rafney Magnúsdóttir, VG, talaði næst. Hún sagði að það þyrfti að framleiða meira rafmagn en fyrst og fremst til að tryggja öryggi landsmanna og fyrir minni fyrirtæki, fiskvinnslu og ferðaþjónustu. Brýnt væri að nútímavæða rafmagnsflutningakerfi landsmanna sem væri víða fyrir neðan allar hellur eins og á Vestfjörðum og á Norðausturhorni landsins, auk þess sem Skagfirðingar hefu óskað eftir fundi um afhendingaröryggi rafmagns. Mikivægt væri þó að koma í veg fyrir að rafmagnslína yrði lögð um miðhálendi landsins.
Páll Jóhann Pálsson, Framsóknarflokki, benti á þvesögnina að fiskvinnslur og fleiri fyrirtæki yrðu að flytja inn olíu vegna þess að raforka lægi ekki fyrir til að knýja starfsemi þeirra áfram. Hann gagnrýndi Landsvirkjun fyrir stefnu fyrirtækisins og hvernig verð á rafmagni sem þó væri ekki tryggt hefði hækkað um 200% til fyrirtækja á skömmum tíma.
Næst kvað Björt Ólafsdóttir, Bjartri framtíð sér hljóðs. Hún hóf ræðu sína á að segja að sér liði eins og hún væri stödd í skringilegu leikriti, þar sem þingmaðurinn Jón Gunnarsson væri leikstjórinn. Það hljómaði ekki vel í hennar eyrum að talað væri um að ná sátt um rammaáætlun þegar hið rétta væri að Jón Gunnarsson hefði á síðasta þingi tekið prívat og persónulega inn þær virkjanir sem honum hugnaðist að henda fram. Jón Gunnarsson kvartaði undan því að 10 ár gætu liðið án þess að eitthvað gerðist í orkumálum en á sama tíma hefði ferðamennska blómstrað og væri nú stærsti iðnaður landsmanna. 80% gestanna kæmu vegna þess að þeir vildu sjá ósnortna náttúru. \"Eru þessar gjaldeyrisstekjur eitthvað verri en þær gjaldeyristekjur sem stóriðjur og móðurfélög afla?\" spurði Björt. Þá gaf hún í skyn að arður og skattar vegna stóriðju yrðu ekki eftir hér. Hvort Jóni liði virkilega þannig að það væri verra að ferðaþjónustufyrirtæki spryttu upp um allt land en fyrirtæki sem reiddu sig á mikla raforku.
Birgitta Jónsdóttir, Pírötum, sagði stóru spurninguna hvort sannarlega vantaði rafmagn á Íslandi? Svarið væri nei. Treysta yrði gömul kerfi og styrkja innviði í flutningi. Forgangsmál sé að tryggja jafnt og öruggt aðgengi almennings að rafmagni. Birgitta tók undir raddir fleiri þingmanna að Jón Gunnarsson hefði verið í fararbroddi þeirra sem vildu rífa rammaáætlun niður sem væri mjög miður.
Jón Gunnarsson var einnig áberandi í huga Svandísar Svavarsdóttur, VG, sem talaði næst í umræðunni. Saga Jóns Gunnassonar væri sú að hann hefði alla tíð haft horn í síðu laganna og svo illyrmislega að hann hefði prívat og persónulega komið með tillögu um að fjölga virkjunarkostum í átta. Sem betur fer hefði það verið rekið til baka, enda óverjandi og óalandi að viðhafa slíkan yfirgang í pólitík þegar orkuauðlindir lansins væru annars vegar. Þá tók Svandís undir gagnrýni fleiri þingmanna á Landsvirkjun, óeðlilegt væri að fyrirtæki í almannaeigu skyldi fara fram með þeim hætti að beita sér með svo miklu afli gegn rammaáætlun.
Elsa Lára Arnardóttir, Framsóknarfokki, lýsti áhyggjum af stöðnun og því að of margir landsmenn byggu ekki við raforkuöryggi.
Róbert Marshall, BF, taldi umræðuna einkennast af nauðhyggju. Hann spurði vegna vanda fiskvinnslufyrirtækja úti á landi sem skorti raforku hvers vegna fyrirtækin reistu ekki sjálf vindmyllur til að verða sér sjálfbær um rafmagn.
Birgitta Jónsdóttir, sagði í seinni ræðu sinni að miklar breytingar væru að verða hér á landi í samsetningu stóriðju. Kannski væru stóru álfyrirtækin að líða undir lok. Deilur um álverið í Straumsvík og framkoma Rio Tinto við starfsmenn væru dæmi um vandræðin. Álfyrrtæki hefðu fengið hagstæða samninga um verð á rafmagni og kæmi illa við Íslendinga.
Jón Gunnarsson, sagði í seinni ræðu sinni að umræðan væri full af tvískinnungi og þess vegna miðaði Íslandi ekkert áfram.Tímabært væri að skynsamt fólk á Alþingi ræddi þessi mál með ábyrgum hætti.
Samantekt: Björn Þorláksson.