Finnst hann ekki eiga það skilið

Í dag eru 28 ár frá því að nánasti samferðarmaður minn birtist, gerði sig heimakominn og hefur neitað að yfirgefa svæðið frá þeirri stundu. 28 ár frá því að við hittumst á horni Grensásvegar og Miklubrautar og hann límdi sig við mig, þó ég hafi gert allt sem í mínu valdi stendur til að stinga hann af.

Hausverkurinn minn á s.s. afmæli í dag, en það var einmitt 31. október 1991 sem hann heilsaði upp á mig þar ég var straujaður í þriggja bíla árekstri á þessum gatnamótum.

Morgunblaðið vildi reyndar ekki gera mikið úr þessu atviki og sagði aðeins í framhjáhlaupi í stuttri frétt sem unnin er upp úr yfirliti lögreglunnar: „...tveir ökumenn slösuðust lítils háttar eftir árekstur þriggja bíla á gatnamótum Grensásvegar og Miklubrautar.“

En frá þessari stundu höfum við verið óaðskiljanlegir, ég og hausverkurinn minn, á hverjum einasta degi, hverri einustu klukkustund og hverri einustu mínútu. Satt best að segja man ég ekki lengur (og það er dálítið síðan ég gleymdi því) hvernig það er að vera ekki með hausverk. Stundum er hann mikill, stundum minni, en hann er alltaf þarna.

Ég var reyndar í máladeild en mér reiknast til að ég sé búinn að vera með hausverk í 10.220 daga í röð.

Á þessum tíma hef ég prófað:
Hefðbundið nudd (mjúkt, hart og allt þar á milli)
Sjúkranudd (allar týpur)
Ilmolíunudd
Litanudd (löng saga)
Steinanudd
Hitanudd
Kínverskt nudd
Bowen nudd
Íþróttanudd
Slökunarnudd
Japanskt nudd
Rússneskt nudd
Saunanudd
Höfuðbeina- og spjaldhryggjanudd
Hnykkingar
Hugleiðslu
Rafmagnsmeðferðir
Jóga
Heilun
Sjúkraþjálfun
Nálastungur
Allar mögulegar og ómögulegar styrktar- og heilsuæfingar
Allar leyfilegar pillur og lyf
Náttúrulyf
Hómópatíu
Heita og kalda bakstra
Sund
Hitapúða og hitateppi
Hitakrem og frystimeðferðir
Heilsukodda
...Og áruhreinsun

Sumir dagar eru betri en aðrir, sumar klukkustundir og mínútur verri en aðrar og hver töfranuddhöndin á fætur annarri hefur lagt sitt lóð á vogarskálarnar til að létta mér lífið. Fyrir allar ykkar ábendingar í gegnum tíðina um réttu aðilana til að hjálpar mér, þakka ég.

Ég vildi annars að ég gæti óskað afmælisbarninu til hamingju með daginn, en æ...mér finnst hann satt best að segja ekki eiga það skilið.

\"\"