Finna þarf færa leið

Langflestir lögfræðingar sem fjallað hafa opinberlega um 3. orkupakkann álíta að ekki verði fullt hald í þeirri aðferð sem ríkisstjórnin boðar í þingsályktunartillögu sinni. Þeir telja sterkastar líkur á því að fjárfestir sem hyggst tengja raforkukerfi okkar við meginlandið (Bretland er á leið út) geti fyrir dómi fengið fyrirvörum þeim hnekkt sem nú eru ráðgerðir og jafnvel fengið skaðabætur frá Íslendingum.

            Nokkrir Alþingismenn vilja bregðast við þessu með ákvæði um að efnt skuli til þjóðaratkvæðagreiðslu ef hugmyndir um raftengingar til Evrópu koma síðar til álita. Þessi tillaga er ágæt, en breytir réttarstöðunni varla.

            Til þess að bæta úr má hugsa sér að Alþingi samþykki þingsályktunartillöguna með viðbótartillögu þess efnis að ríkisstjórn Íslands leggi það tafarlaust fyrir sameiginlegu EES-nefndina að Ísland hyggist ekki fyrir sitt leyti taka upp allar reglur raforkukerfis Evrópusambandsins af náttúrulegum ástæðum (fjarlægðum, legu lands, mannfjölda hér, náttúruvernd, orkumálastefnu okkar og raforkukerfi, sjávardýpi o.fl.) og hyggist m.a. af sömu ástæðum ekki tengjast raforkukerfum annarra landa. Tiltekið verði að 3. orkupakkinn taki ekki gildi fyrir Ísland fyrr en sameiginlega nefndin hefur staðfest afstöðu Íslendinga með formlegum hætti.

            Þetta er skýlaus réttur aðildarríkis EES, eins og aðildarríkja ESB. Slík stjórnskipuleg staðfesting á ekki að koma á óvart, nema að því leyti að Íslendingar hafa látið málið dragast úr hömlu.

            Þetta mál er komið í uppnám, og tekist hefur að kveikja tortryggni og ótta meðal almennings. Órökstuddar samsæriskenningar heyrast víða. Ríkisstjórn Sigmundar Gunnlaugssonar lét málið velkjast án þess að taka á vandanum sem fyrirsjáanlegur var þá þegar. Því er það verkefnið nú að finna lausn og færa leið.

Höf. er fv. skólastjóri