Konan mín er full efasemda

Við stjórnmálamenn erum alltaf að velta fyrir okkur hjá hvaða hópum í samfélaginu við njótum stuðnings. Við rýnum í tölur frá Maskinu, MMR eða hvað þetta drasl heitir allt saman og förum á taugum reglulega þegar tölur eru niður á við.

Magnast þá populisminn og keppni hefst í loforðum um aukin útgjöld á kostnað skattgreiðenda, sem er ekki lengur fólk heldur tekjustofn.

Eina sem ég veit um stuðning og vinsældir að þegar ég er á öldurhúsunum, þar sem stór hluti þjóðarinnar heldur sig, finn ég fyrir verulegum stuðningi. Segi gjarnan konunni minni frá því þegar ég kem heim um miðjar nætur. En hún er full efasemda og segir það þekkt að þeir sem sífellt eru að bjóða á línuna fái klapp á bakið og vinsældirnar vari ekki nema fram að lokun barsins.