Nú styttist óðfluga í hrekkjavökuna en hún framundan 31.október næstkomandi og æ fleiri taka þátt í hrekkjavökunni hér á landi. Margir eru þessa dagana að undirbúa hrekkjavökupartý og þá er gaman að bjóða uppá spennandi og hræðilegar kræsingar. Íslendingar eru sólgnir í allskyns dýfur með snakkinu sínu það hefur sýnt sig með eðlu æðinu sem hefur lifað núna í mörg ár. Hér kemur aftur á móti dýfa sem er algjör andstæða eðlunnar og smell passar í partýið og er úr smiðju Guðrúnar Ýrar Eðvaldsdóttur sem heldur úti síðunni Döðlur og smjör. Þess er fersk, holl og ótrúlega bragðgóð.
„Hægt er að skella í hana á mettíma og bera fram við alls kyns tilefni. Mér finnst hún einmitt tilvalin í hrekkjavökupartý, þar sem allt er morandi í nammi og gefur hún ákveðið jafnvægi á móti því,“segir Guðrún sem veit fátt skemmtilegra en að koma með nýjungar úr eldhúsinu.
Fersk salsa sósa
1 dós sýrður rjómi 18%
½ krukka salsa sósa
½ gúrka
½ laukur
2 tómatar
½ paprika
50- 100 g rifinn cheddar ostur
chili og kóríander eftir smekk
Kokteiltómatar til skrauts
Smyrjið ¾ af sýrða rjómanum í lítið eldfast mót eða á disk, dreifið síðan salsa sósunni yfir sýrða rjómann. Skerið þá grænmetið örsmátt niður eða rífið það niður í matvinnsluvél sem tekur ykkur örskamma stund. Blandið öllu grænmetinu saman í skál og hellið mesta vökvanum frá. Bætið saman chili og kóríander ef þess er óskað. Dreifið þá úr skálinni yfir salsa sósuna. Stráið cheddar ost hringinn í kringum dýfuna og skerið kokteil tómata til að skreyta.
Til þess að útbúa köngulóarvefinn ofan á dýfuna, takið restina af sýrða rjómanum og setjið í sprautupoka með hringlaga stút á. Byrjið á því að gera mynstur líkt og þið væruð að skera pizzu í 8 parta og síðan er tengt á milli í tveimur umferðum með hálfhrings hreyfingu. Skerið eina ólífu í tvennt, notið annan partinn sem kropp og skerið hinn í 6 sneiðar og notið sem lappir á köngulóna.