Í fyrsta skipti í forsetakosningum síðan árið 1996 stefnir í ferska og spennandi baráttu millli nýrra forsetaefna um stólinn á Bessastöðum. Á næstu vikum munu tveir kandídatar marka sér spor, orðið verður þeirra. Annar stal senunni í gær, Guðni Th. Jóhannesson, hinn er Andri Snær Magnason.
Fyrir fréttaskýrendur og orðræðuunnendur var áhugavert að fylgjast með því sem Guðni setti á dagskrá í gær þegar kastljós fjölmiðla og almennings beindist að honum. Þótt hann sé prúður og bjart yfir honum dylst engum hugur að þar fer líka keppnismaður sem sneiddi þótt kurteislega væri að keppinautum án þess að nefna þá nokkru sinni á nafn. Augljóst er að Guðni sendi sitjandi forseta pillu með því að segja að sá sem væri með raunverulegt sjálfstraust byggi yfir hógværð í eigin hjarta og hefði því enga þörf til að tala um eigin afrek. Að belgja sig út með heimsmetaumræðu og eigna sér kraftaverk heimsmetaþjóðar væri sennilega tákn um skort á sjálftsrausti fremur en hitt. You aint seen nothing yet!
Þá hugsuðu margir til Andra Snæs og hvernig hann hefur lagt upp sitt framboð þegar Guðni sagði í gær að forseti ætti ekki að hafa málstað. Ef svo yrði hann ekki forseti allrar þjóðarinnar. Forseti ætti að halda sér til hlés en grípa inn í ef upp kæmu sérstakar aðstæður. Andri Snær rekur sína framboðsbaráttu með hugsjónum.
Allt bendir til að spennandi tímar séu í vændum. Vel má hugsa sér að Andri Snær hafi verið að svara Guðna þegar hann skrifar á eigin facebooksíðu í dag: \"Góðan daginn! Nú er stuðið rétt að byrja, línurnar eru að skýrast og mér sýnist þetta hreinlega snúast um hvort forseti eigi að hafa skýra framtíðarsýn eða vera hlutlaus gagnvart landi okkar og náttúru.\"
Vilji til breytinga á stjórnarskrá mun einhverju ráða um það hvernig Íslendingar munu ráðstafa atlvæði sínu. En flestir eru sammála um að tvö fullkomlega frambærileg forsetaefni séu komin fram. Og er nú aldeilis um eitthvað að hugsa og ræða, hvort forseti með málstað er síðri forseti en sá sem ætli að vera hlutlaus. Skýr framtíðarsýn eða ekki? Það er alvöru álitaefni.
Ég mun ganga glaður til kjörklefans í fyrsta skipti í 20 ár í næsta mánuði. Vinir mínir margir segja það sama. En enn er allt of snemmt að spá fyrir um hvar atkvæðið dettur. Eflaust skýrist það ekki fyrr en á kjördag.
Megi Guðna og Andra ganga vel.
Björn Þorláksson