Fer ragnar þór með vr fram af brúninni?

VR hét einu sinni Verzlunarmannafélag Reykjavíkur. Nú bara VR. Þetta félag hefur um skeið verið stærsta launþegafélag landsins og er nú með meira en 30 þúsund félagsmenn. Alveg fram að hruni, um 2008, var þetta félag þungavigt, ekki aðeins í málefnum launþega og sinna félagsmanna, heldur almennt í allri þjóðmálaumræðu. Lengi var Magnús L. Sveinsson formaður og þegar hann tjáði sig opinberlega var það ígrundað og markvisst og menn fundu að hann hafði mikið til málanna að leggja. 

Eftir hrun varð mikil breyting. Það er engu líkara en þetta stóra og áður öfluga félag hafi gleymt tilgangi sínum og glutrað niður því erindi sem það áður rak í samfélaginu. Þetta hefur á liðnum dögum og vikum orðið átakanlega ljóst þegar nýr formaður félagsins, sem kosinn var af um 10% félagsmanna, stígur fram og leggur erindi sitt fyrir alþjóð. Hann dregur upp margra ára gamalt persónulegt og þráhyggjukennt baráttumál sitt gegn lífeyrissjóði félagsmanna VR, Lífeyrissjóði verzlunarmanna og sérstaklega gegn framkvæmdastjóra sjóðsins, sem hann virðist sífellt eiga einhverjar óuppgerðar sakir við. Reyndar skal viðurkennt að hann tekur stöku sinnum hliðarspor til að hreyta ónotum í forseta ASÍ.

Nú er það nýjasta að krefjast þess að laun framkvæmdastjóra lífeyrissjóðsins verði lækkuð! Og rökin eru þannig að draga verður þá ályktun að þeir VR félagar sem kusu þennan formann hafi vitandi eða óvitandi kallað feigð yfir félagið. Hann veit greinilega ekkert um lífeyrissjóði eða eðli þeirra. Hann teflir því fram gegn launum framkvæmdastjórans að svo og svo mörg meðaltalsiðgjöld sjóðfélaga fari í að borga launin! 

Hvort sem launin eru há eða lág, þá eru það ekki iðgjöld sjóðfélaga sem standa undir þeim. Það er ávöxtun iðgjaldanna, ávöxtun sjóðsins, sem stendur undir öllum kostnaði við rekstur hans. Og hver skyldi nú ávöxtunin hafa verið? Frá árinu 2009 (sem er fyrsta heila ár eftir hrun og árið sem núverandi framkvæmdastjóri tók við starfi sínu) hefur sjóðurinn stækkað sem nemur um 330 þúsund milljónum króna. Það er þessi vöxtur (meðaltals raunávöxtun á ári síðustu 20 ár er um fjögur og hálft prósent sem telst á alla kvarða vera gott) sem líka tryggir að sjóðfélagarnir fá greiddan lífeyri, margir langt umfram það sem þeir hafa greitt í iðgjöld. Ekki þarf að blaða lengi í ársskýrslum sjóðsins til að sjá þetta, þær er auðvelt að nálgast á vef sjóðsins. En - svo virðist sem nýr formaður VR sé ekki læs á staðreyndir, ef honum þóknast þær ekki.

Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir hinn almenna félagsmann VR að til formennsku í félaginu sé kominn maður sem hefur það að sínu helsta, jafnvel eina, baráttumáli að lækka lun! Hann ku hafa byrjað á að lækka eigin laun og nú hamast hann við að fá laun stjórnenda í lífeyrissjóði félagsmanna VR lækkuð! Ekki hefur hann þó enn komið með skýringar á því hvernig lækkun þeirra launa eigi að koma félagsmönnum VR til góða varðandi bætt laun og réttindi þeirra.

Það leiðir svo hugann að því, sem margir eru farnir að koma auga á og ræða sín í milli: Hefur þessi nýi formaður stærsta launþegafélags landsins eitthvað fleira til málanna að leggja en að hamast gegn lífeyrissjóðunum almennt og sérstaklega lífeyrissjóði sinna félagsmanna? Hvert er erindi hans í launabaráttu félagsmanna? Hvert er erindi hans í réttindabaráttu félagsmanna? Í fréttum hafa verið fjölmörg mál sem varða grundvallarréttindi launafólks svosem svört atvinnustarfsemi, kennitöluflakk, samningsbrot, launasvik og fleira. Hvaða boðskap hefur formaðurinn þar?

Þessi nýjasti formaður VR verður kannski sá síðasti í röð lánlausra formanna sem lítið eða ekkert hafa gert fyrir félagsmenn VR né félagið sjálft, annað hvort vakni félagsmenn og kjósi sér góðan og öflugan formann eða félagið einfaldlega lognast út af og deyr drottni sínum. Það er jú félagafrelsi á Íslandi og enginn neyddur til aðildar. En, til að fá góða forystu þurfa félagsmenn að kjósa í formannskjöri en láta það ekki fámennum hópi ofstopamanna eftir.

rtá