Vandræðagangurinn vegna skýrslu Ríkisendurskoðunar um sölu Bankasýslunnar á 22,5 prósenta hlut ríkisins í Íslandsbanka virðist engan enda ætla að taka. Enn á ný hefur útkomu skýrslunnar verið frestað, en hún átti að koma út í lok júní og hefur svo verið frestað um mánuð í senn fjórum sinnum. Umsagnarfrestur hafði verið ákveðinn en verður nú framlengdur til 25. október að beiðni Bankasýslu ríkisins.
Grunsemdir um að ætlunin sé að draga útkomu skýrslunnar fram yfir landsfund Sjálfstæðisfllkksins sem hefst í Laugardalshöll þann 4. nóvember nk. hafa núu fengið byr undir báða vængi. Erfitt er að koma auga á aðra skýringu á þessum endalausa drætti en þá að trúnaðarmenn Bjarna Benediktssonar á ýmsum stöðum rói að því öllum árum að koma í veg fyrir að skýrslan líti dagsins ljós fyrir landsfund Sjálfstæðisflokksins þar sem Bjarni sækist eftir endurnýjuðu umboði sem formaður.
Leiði skýrslan í ljós alvarleg afglöp gæti það orðið formanni flokksins og fjármálaráðherra mjög erfitt, jafnvel fjötur um fót komi til kosninga um formannsembættið. Athygli vekur að Bankasýsla ríkisins skuli nú óska eftir framlengdum fresti til umsagnar, en formaður bankasýslunnar er Lárus Blöndal sem er persónulegur vinur Bjarna Benediktssonar og einn helsti bandamaður hans.
Ekki verður með góðu móti séð að skýrslugerðin geti verið flókin eða yfirgripsmikil. Í öllu falli getur vart verið tilefni til að fresta útkomu hennar um fjóra mánuði, sé allt með felldu. Þó að Bankasýsla ríkisins hafi haft umsjón með framkvæmd útboðsins er óumdeilanlegt að fjármálaráðherra ber pólitíska ábyrgð á bankasöunni. Feli skýrslan í sér áfellisdóm verður Bjarni Benediktsson öðrum fremur fyrir pólitísku áfalli. Víst er að útkoma skýrslunnar rétt fyrir landsfund getur verið mjög óheppileg – að ekki sé talað um ef útkomu hennar verður frestað fram yfir fundinn. Þá fyrst má ætla að upp úr sjóði.
Skyldi vera tíðinda að vænta af landsfundi Sjálfstæðisflokksins?
Þó að ekkert hafi verið staðfest ennþá, gengur nú fjöllunum hærra að stöðugt, og í vaxandi mæli, sé skorað á Guðlaug Þór Þórðarsen umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra ráðherra að gefa kost á sér til formennsku í flokknum. Margir telja að Sjálfstæðisflokkurinn eigi ekki möguleika á því að lyfta sér upp úr 20 til 25 prósent fylgi fyrr en til formannsskipta kemur. Guðlaugur Þór er að margra mati eini maðurinn sem getur tekið við formennsku í flokknum af Bjarna Benediktssyni. Láti Guðlaugur Þór undan sívaxandi þrýstingi og bjóði sig fram til formanns á landsfundinum er ljóst að fundurinn verður í meira lagi sögulegur.
Einnig hefur flogið fyrir að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hafi mikinn áhuga á að bjóða sig fram til embættis varaformanns í flokknum. Hún þyrfti að etja kappi við Þórdísi Kolbrúnu Gylfadóttur utanríkisráðherra sem gegnt hefur embættinu hin síðari ár. Óneitanlega kæmi á óvart ef þær stöllur tækjust á um embættið en bent er á að Áslaug Arna búi yfir ótakmörkuðum metnaði og hafi ofmetnast af frama sínum innan flokksins.
Ferill Áslaugar Örnu þykir almennt ekki kalla á frekari upphefð hennar innan flokksins í bili.
- Ólafur Arnarson.