Félagsleg ragnarök

Í dag, sunnudaginn 29. nóvember, hefst aðventan og vitaskuld langar mann ekkert frekar en að skrifa áhyggjulaus um jólasnjó og ljós og birtu, fallegu börnin okkar, fjöllin, fegurðina og ástina sem mörg okkar finna hitna í svartasta skammdeginu. Næg eru tilefnin að skrifa rósbleika pistla um öll þau undur sem rekur á fjörur okkar hvern einasta dag og gera lífið þess vert að lifa því.

En við lifum í samfélagi þar sem segja má að fullkomið rof hafi orðið á trausti milli þjóðarinnar og þeirra sem fara með umboðið að leiða hana áfram.

Og það er slíkt alvörumál að börnin, ástin, aðventan og það allt verður aðeins að bíða.

Sem ég sit hér við tölvuna og rýni í fylgiskannanir sem sýna að ríkisstjórninni hefur tekist það albest af öllum góðum verkum að tæta af sér fylgið, sem er áhugavert eins heppin og hún þó er, að ríkja yfir landi sem nýtur þeirra blessunar að rignt hefur gulli, þökk sé erlendum ferðamönnum, þá leggst furðuleg tilfinning yfir mig. Hún batnar ekki við að rýna í ummæli forseta Íslands  sem DV var svo rausnarlegt að aldreifa til okkar fyrir fé sem enginn veit hvaðan kemur.

Ég er ekki pólitískur maður, ekki nema þá samfélagspólitískur. Sá hlýtur að öðlast skoðanir á samfélagskerfum sem fjallar um þjóðmál áratugum saman og menntar sig að auki í þeim fræðum eins og háttar til í mínu tilviki. Ég er bæði til hægri og vinstri svo það sé sagt. Á vini sem hallast lengst til hægri. Á vini sem telja að Karl Marx sé upphaf og endir alls. En eitt erum við þó allir sammála um. Hið sammannlega vegaleysi okkar.

Í samkvæmi fyrir skemmstu bar vinahópurinn minn saman það sem kalla mætti pólitíska meðvitund, hvernig hún er í dag og hvernig hún var þegar við vorum yngri. Við ræddum að nú værum við vegalausir í þeim skilningi að hvorki forsætisráðherra, flestir aðrir ráðherrar né forseti Íslands tengdu okkur lengur við eigið samfélag eða gerðu okkur kleift að sleppa og treysta eins og í gamla daga. Allir höfðum við upplifað ákveðinn Paradísarmissi.

Ein lykilspurningin sem kviknaði í vinahópnum var: Voru stjórnmálamenn fyrri tíma betri en í dag? Eða vorum við áður óupplýstir, naív og auðtrúa þegar við höfðum engar áhyggjur af áherslum stjórnvalda, brostum bara í kór þegar Vigdís forseti kom fram í fréttum, fannst Steingrímur Hermannsson yndislega mannlegur og hrópuðum Áfram Ísland! án nokkurra blendinna tilfinninga í landsleikjum?

Eða hafði hitt gerst? Að þjóðin hefði á síðari árum stökkbreyst upplýsingalega, þökk menntun, ferðalögum, Internetinu. Að aukin gagnrýnin hugsun og speglun við  nágrannalönd væri hvatinn að auknum kröfum um mannlega stjórnun og góð skilaboð stjórnvalda á sama tíma og liðið sem hefur haft aðgang að ráðandi stöðum í pólitíkinni byggði  kannski enn á gömlu kerfum andverðleika þar sem hver þursinn á fætur öðrum hefði dagað uppi á meðan aðrir fylgjast firrtir og forviða með.

Við vinahópurinn ræddum að það örlaði helst á jákvæðum tilfinningum gagnvart helstu stjórnendum í pólitíkinni þegar við upplifðum samúð með ýmsum greyjum þarna á þingi.

Samt á klíkuskapur, sérhagsmunapot, hroki, heimska og færsla almannagæða  og jafnaðar yfir til ójafnaðar einkavinavæðingar ekkert gott skilið. Þess vegna hamrar maður gallsúrt járnið fremur en að leyfa doðanum að leggjast yfir sálina.

Þess vegna skrifar maður ekki bara um aðventuna, börnin, kertaljósin og ástina, þótt það væri gaman.

Vegna ástarinnar á samfélaginu og vegna þeirrar rómantísku en líka raunsæju hugmyndar að Ísland gæti ef við öll vöndum okkur orðið svo miklu betra land, rífur maður kjaft. Til eð eygja von um að komast aftur heim í huganum. Vonast eftir að sleppa, treysta og njóta á ný. Eins og í gamla daga.

Sá sem gekk lengst í vinahópnum kallaði vantraustið á stjórnmálamönnum samtímans félagsleg ragnarök. Þegar allt traust væri horfið. Þegar áherslur stjórnvalda lægju akkúrat í þágu valdsins eins og það birtist þykkast en hefðu almannahagsmuni og félagslega samlöðun ólíkra hópa að engu.

Þótt líkingin sé í stærri kantinum finnst mér hún verð allrar skoðunar og eiga heima í fyrirsögn sem spurning til okkar allra.

Ef við veitum stjórnvöldum ekki aðhald – og það á við um Pírata eins og alla aðra flokka -  gætum við siglt sofandi að feigðarósi.  Hin félagslegu ragnarök verða að veruleika sama dag og við hötumst við allt sem að utan kemur og bjögum öll fyrri viðmið um gott og fagurt þjóðfélag vegna óttans að missa þó þá kökumylsnu sem fellur við og við af borði höfðingjanna.

Tóman maga má nýta til andófs í þágu vakningar. En sömu sögu er ekki hægt að segja um tóman og sigraðan heila.

(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á Hringbraut)