Líklegt má telja að á hverjum degi fái nokkuð margir Íslendingar einhverskonar einkenni sem stafa frá hjarta en viðkomandi lætur fram hjá sér fara eða ber ekki kennsl á. Boðskapurinn í pistlinum er mikilvægur og það eru nákvæmlega þessir litlu hlutir sem við teljum ekki alvarlega sem geta skipt miklu máli í aðdraganda hjartaáfalls.
Aðdragandinn að hjartaáfallinu mínu var fyrirvaralaus að því er mér fannst í fyrstu. þrátt fyrir að ég færi yfir síðustu mánuði í huganum dagana eftir áfallið, gat ég hreinskilnislega sagt að ég hafi alls ekki átt von á þessu enda ekki nema 37 ára gamall.
Eftir að ég kom heim af sjúkrahúsinu og ég lærði meira um einkenni og aðdraganda hjartaáfalla þá gat ég tengt við eitt og annað sem ég hafði upplifað síðustu þrjú til fjögur árin á undan. Sumt af því hefði átt að gefa vísbendingar um að ekki væri allt með felldu en ég hafði ekki þekkingu til að meta á þeim tíma, eða hlustaði ekki nógu vel hvað líkaminn var að segja mér.
Ég leitaði til lækna á þessum árum en engum þeirra sem ég fór til, lét sér detta til hugar að ég -sem þá var 34 – 35 ára gamall væri hugsanlega með þrengsli í kransæð sem þarfnaðist skoðunar.
Ég ferðaðist mikið vegna vinnu minnar á þessum árum og þurfti oft að vaka nokkuð lengi og vakna snemma og þetta tók toll. Ég átti erfitt með svefn og undir það síðasta þá fann ég hvernig úthaldið minnkaði og þreytan jókst.
Mér fannst orðið erfiðara að vaka og oft þegar ég var á heimleið úr þessum ferðalögum var ég með óreglulegan hjartslátt og aukalsög sem lýstu sér þannig að það var eins og hjartað sleppti úr slagi. Þetta var mjög óþægileg tilfinning og ég hafði af þessu áhyggjur.
Ég fór til heimilislæknis sem tók blóðprufur.
Ég hafði síðan samband við lækninn og hann sagði mér að það væri í lagi með blóðprufurnar og taldi hann líklegt að álagið væri bara að segja til sín, auk þess sem hafði ég skilið stuttu áður og skrifaði hann ristruflanirnar sem hrjáðu mig á kvíða vegna þess en sá ekki ástæðu til að kanna málið frekar.
Átta mánuðum eftir blóðprufuna hjá heimilislækninum fékk ég hjartaáfallið en stöðugt hafði dregið af mér þessa mánuði og engar höfðu fundist skýringarnar og hvergi hringt viðvörunarbjöllur.
Ég áttaði mig ekki á því hvað var að gerast þar sem ég þekkti ekki einkennin þrátt fyrir að á þessum tíma hafi legið fyrir:
- Gríðarmikið álag í langan tíma og mikil streita
- Úthaldsleysi
- Mæði
- Erfitt að ná upp þreki
- Þyngsl fyrir brjósti
- Tilfinning fyrir því að mig vantaði súrefni
- Hjartsláttartruflanir undir álagi og eftir mikið álag
- Ristruflanir
- Of hátt kólesteról, 6,9 átta mánuðum fyrir hjartaáfall en 7,6 þegar hjartaáfallið reið yfir
Þrátt fyrir að hafa verið einungis 37 ára gamall á þessum tíma hefðu þessi einkenni átt að duga til þess að heimilislæknirinn minn hefði átt að láta athuga hjartað í mér eða senda mig til sérfræðings.
Það merkilega við þetta er að það var fyrir hreina tilviljun að mér varð ljóst að heimilislækninum hafði yfirsést að ég hafði kólesteról sem var 6,9 átta mánuðum fyrir hjartaáfall. Þessi vitneskja varð mér ljós nokkrum árum eftir að ég fékk hjartaáfallið mitt.
Það má því jafnvel færa rök fyrir því að hefði læknirinn borðið gæfu til þess að reka augun í þetta háa kólesteról, hefði hugsanlega verið hægt að gera eitthvað í málunum, laga æðaþrengslin og ég jafnvel aldrei fengið hjartaáfall.
Því miður þá varð það ekki raunin.
Mig langaði að deila þessu með ykkur því ég veit að það eru margir sem telja sig ekki finna fyrir neinu en þegar grannt er skoðað er eitt og annað sem bendir til þess að það sé kannski ráð að panta sér tíma hjá hjartasérfræðingi til að láta ganga úr skugga um að allt sé í rauninni með felldu.
Það er mikilvægt að þekkja gildin sín og þess vegna er það góður siður að fá afrit af niðurstöðum rannsókna sem gerðar eru og sætta sig ekki við að fá engin svör heldur halda áfram það til viðunandi niðurstaða fæst, góð eða slæm.
Verum góð hvort við annað og njótum þess að vera til því það er ekki sjálfsagt.
Björn Ófeigsson
Birtist áður á hjartalif.is