Það var heldur slappt Kastljósið í gær þar sem skautað var yfir Vigdísarmálin í Ráðhúsinu á svo yfirborðslegan hátt að enginn var nokkru nær. Það er ansi hart þegar hlutlaus embættismaður í kerfinu er hundeltur svo árum skiptir af kjörnum fulltrúa sem skítnýtir sér allt sem til fellur í baráttu sinni fyrir eigin frama, jafnvel starfsmannamál innanhúss sem eiga þó að vera í skjóli frá pólitíkinni. Það er líka ansi hart þegar umræða í fjölmiðlum um eineltismál byggir á trúnaðargögnum sem gerandinn (Vigdís) hefur opinberað á samfélagsmiðli af tómri ósvífni og hefnigirni, svona rétt til að sanna að um einelti sé að ræða af hennar hálfu, og þeim sama geranda er svo einum boðið til umræðunnar en ekki fórnarlambinu. Í þættinum var þó ekkert minnst á þessa ósvífnu og eineltislegu birtingu hennar á trúnaðargögnum! (Ó, íslenskir fjölmiðlar...)
Embættiskona sem lendir í slíkri umræðu, og slíkri útúrsnúningsvél sem Vigdís er, á ekki marga kosti, en ég dáist þó að því að hún reyni að bera af sér eineltið og ásakanirnar og taka slaginn við Vigdísi, það kemur enginn hreinn frá slíkum eðjuslag. En afhverju eiga popúlistarnir að fá að blaðra og ljúga athugasemdalaust? Nokkrar staðreyndir: Embættiskonan var ekki dæmd, eins og Einar í Kastljósinu hélt fram, heldur borgin, (hún var ekki einu sinni aðili máls). Embættiskonan hefur aldrei tjáð sig beint um Vigdísi. Vigdís hefur aðeins hitt hana þrisvar segir hún, en hefur hinsvegar vegið að henni yfir 40 sinnum á Facebook, sem og í viðtölum víða, auk þess að birta á vegg sínum fjölda gagna um málið sem merkt eru \"trúnaðarmál\".
Megininorsökin að þessu öllu sést þó vel þegar dómur héraðsdóms er lesinn: Í ráðhúsinu starfaði greinilega útbrunninn karlmaður sem fjármálastjóri og meikaði ekki að kona yngri en hann væri orðinn yfirmaður hans og byrjuð að færa honum verkefni að vinna. Þegar hann neitar ítrekað að vinna verkin sín þá þarf konan á endanum að veita honum áminningu. Í réttinum tókst karlinum hinsvegar greinilega að ljúga eina dómara málsins á sitt band. Þetta mál er því í grunninn \"feðraveldið vs femínisminn\" og tengist þannig öðrum málum dagsins, þar sem konum er ítrekað refsað fyrir afbrot karlmanna. Minni því fólk á að styrkja Málfrelsissjóðinn góða á Karolinafund.