Mikil viðbrögð hafa orðið við þeirri frétt að stúlka í Fellaskóla hafi ekki fengið að kaupa sér pizzusneið í skólanum sínum þegar skólinn gerði sér glaðan dag á öskudaginn af því að hún var ekki skráð í mataráskrift.
Hringbraut hefur spurt hvaða fyrirkomulag tíðkist í skólum landsins og benda svörin til að um slys sé að ræða en þó munu dæmi um skóla þar sem kerfið virðist ekki gera tilslakanir frá mataráskriftum.
Allmargir talsmenn kerfisins eða skólanna hafa í viðtölum við Hringbraut sagt að mannúð eigi alltaf að setja framar kerfisreglum, að barn sem langi að borða mat í skóla eigi alltaf að fá það. Í Oddeyrarskóla á Akureyri er sá háttur viðhafður að foreldrum barna ekki eru í mataráskrift er gert viðvart ef eitthvað stendur til sérstakt eins og háttaði til um pizzuhlaðboð Öskudagsins í Fellaskóla. Er þeim þá boðið að borga smáræði til að vera með og flestir gera það.
\"Börnum þeirra foreldra sem ekki borga eða geta ekki borgað, þeim er aldrei neitað,\" segir faðir barns í Oddeyrarskóla.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur farið fram á rannsókn vegna málsins en fram hefur komið að skólastjórinn hafi sjálfur neitað barninu um pizzuna, þótt mamma skólastúlkunnar hefði sent hana með 500-kall, sérstaklega vegna veislunnar og vegna þess að hún vildi vera með félögum sínum.