Reyndu að kaupa notuð föt, sérstaklega þegar þú kaupir föt á börn. Margt hefur breyst til hins betra þegar kemur að því að endurnýja föt á ung börn og stundum hafa foreldrar staðið fyrir skiptimarkaðsdögum í skólum, leikskólum og hjá íþróttafélögum barna sinna. Útivistarfatnaður eins og pollagallar og vetrargallar eru oft eins og nýir þegar börnin vaxa upp úr þeim og ekki síst íþróttafatnaður. Einnig hafa sést fésbókarsíður sem bjóða uppá skipti á fötum fyrir börn. Vert er að minnast á verslunina Barnaloppuna, www.barnaloppan.is þar sem fram fer sala á notuðum barnafötum og barnavörum. Einnig er búið að opna verslunina Extra loppuna sem er fyrir fullorðna. Fullorðnir geta líka keypt sér notuð föt. Vintage fatnaður hefur aldrei verið vinsælli sem aldrei fyrr enda var þorri fatnaðar, sem er nokkrurra áratuga gamall, framleiddur úr betra hráefni og við betri skilyrði en nú tíðkast.
Besta lausnin til að fækka kolefnissporin er að kaupa minna en meira. Föt geta ekki talist sjálfbær nema þau séu notuð mikið og lengi. Því lengur, því betra. Einnig skiptir máli hvar og hvernig fötin voru framleidd. Þú verður að taka allt með í reikninginn ef þú vilt ná að halda vistspori þínu vegna fatanotkunar í skefjum.