Fátæklegir listar Sjálfstæðisflokks í Reykjavík

Sjálfstæðisflokkurinn kynnti framboðslista sína í Reykjavík um síðustu helgi. Furðu vekur að flokkurinn skuli ekki hafa náð að stilla upp sterkari framboðslistum í höfuðborginni en raun ber vitni.

Tvö efstu sætin í hvoru kjördæmi eru vitanlega í samræmi við úrslit prófkjörsins þar sem Guðlaugur Þór Þórðarson sigraði, flokkseigendum til mikils ama. Að venju var skorin upp herör gegn honum, en í þetta sinn var ekki látið duga að gera það innan flokksins heldur sótti Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, helsti keppinautur Guðlaugs, fólk úr öðrum flokkum, fólk sem aldrei kýs Sjálfstæðisflokkinn, til að fella Guðlaug en það dugði ekki til.

Guðlaugur Þór og Diljá Mist Einarsdóttir skipa tvö efstu sætin í Reykjavíkurkjördæmi norður en Áslaug Arna og Hildur Sverrisdóttir tvö efstu sætin í Reykjavíkurkjördæmi suður. Þessi fjögur sæti ættu að vera örugg þingsæti.

Í næstu sætum eru svo Brynjar Níelsson, sem taldi sér hafa verið hafnað í prófkjöri flokksins en hætti svo við að hætta, og Birgir Ármannsson. Erfitt er að sjá hvaða fylgi þeir sækja fyrir flokkinn - umfram kjarnafylgið. Mögulega geta þeir þó stöðvað eitthvað fylgistap til Miðflokksins.

Neðar á listunum eru ekki margir sjáanlegir sem styrkja framboðið, auka breidd og vídd. Engir fulltrúar stórra og mikilvægra hópa eins og venjan var á árum áður hjá flokknum þegar verkalýðsleiðtogar, íþróttafrömuðir og listamenn voru kallaðir til leiks til að styrkja uppstillingu flokksins. Að ekki sé nefnt bara venjulegt fólk. Engin tilraun virðist gerð til að höfða til kjósenda.

Skipan heiðurssætanna vekur sérstaka athygli.

Í næstneðsta sæti suðurkjördæmisins situr Nanna Kristín Tryggvadóttir verkfræðingur og heiðurssætið skipar Halldór Blöndal fyrrum þingmaður Norðurlands og landbúnaðarráðherra, sem seint verður talinn sérstakur talsmaður Reykjavíkur og hagsmuna höfuðborgarinnar. Í norðurkjördæminu er Gréta Ingþórsdóttir í næstneðsta sæti en heiðurssætið skipar Sigríður Andersen, fráfarandi þingmaður sem var hafnað með afgerandi hætti í prófkjörinu í vor.

Venjan er að setja gamla foringja í heiðurssætin. Hvers vegna fékk flokkurinn ekki "kanónur" fyrri ára í heiðurssætin til styrktar framboðunum? Fólk eins og Davíð Oddsson, Friðrik Sophusson, Sólveigu Pétursdóttur, Guðmund H. Garðarsson og Guðmund Hallvarðsson, eða þá fyrrum borgarstjóra flokksins Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson og Markús Örn Antonsson eða núverandi leiðtoga flokksins í minnihluta borgarstjórnar Reykjavíkur, Eyþór Arnalds.

Var þessu fólki boðið heiðurssæti sem það afþakkaði? Gæti það verið?

- Ólafur Arnarson