Sérstök umræða fór á Alþingi fram í vikunni um skýrslu UNICEF sem mælir skort á lífsgæðum íslenskra barna.
Niðurstöður skýrslunnar vöktu mikla athygli þegar þær voru kynntar fyrir nokkru. Oddný G. Harðardóttir, Samfylkingunni, bað um umræðuna. Hún spurði m.a. hvað gæti skýrt að samkvæmt greiningu UNICEF byggju 9% íslenskra barna við skort, um 6.300 börn alls. Alvarlegt væri að fjöldi barna sem liði skort hefði tvöfaldast miðað við gögn sem ná yfir árið 2014 frá mælingu ársins 2009.
„Hvert á að beina stuðningi við börn í landinu?“ Spurði Oddný.
Börn öryrkja, námsmanna og leigjenda virðast í sérstökum áhættuhópi. Telur Oddný, fyrrverandi fjármálaráðherra, rétt að hækka húsaleigubætur, hækka barnabætur og úthluta þeim mánaðarlega. Mánaðarlegar barnabætur myndu gagnast betur til að bæta klæðnað og félagslíf barna fátækra barna. Slumpar sem kæmu aðeins fjórum sinnum á ári væru oft notaðir með öðrum hætti en nú eru bætur greiddar á þriggja mánaða fresti.
Til svara í umræðunni var velferðarráðherra, Eygló Harðardóttir. Hún benti á að mælingin 2009 hefði verið undir lok eins mesta góðæristímabils efnahagssögunnar. Jákvætt væri að næring barna hefði batnað, sem og aðgangur að upplýsingum, neti og sjónvarpi. Sláandi væri þó að sjá skortinn sem birtist í húsnæðismálum. Lítil fjölgun hefði orðið í félagslegum íbúðum, mjög langir biðlistar.
Barst þá umræðan að þáttum eins og samanburði barna, stríðni og dagsbirtu. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG, gerði minnimáttarkennd fátækra barna að umræðuefni. Hún sagði þau hræðast samanburð vegna ótta við stríðni. Einn áhugaverðasti punkturinn í umræðunni var að þingmaðurinn nefndi að minni dagsbirta væri iðulega í íbúðarhúsnæði efnaminni barna en annarra, má nefna kjallaraíbúðir. Lýsti Bjarkey áhyggjum af því að Eygló ráðherra teldi að húsnæðisfrumvörp leystu þann vanda, en þar yrði boðið upp á litlar leiguíbúðir og oft litla dagsbirtu.
Með liti til rannsókna sem hafa mælt samband milli dagsbirtu og heilsu Íslendinga, ekki síst er svartasta skammdegið mörgum erfitt, kann takmörkuð dagsbirta að stéttaskipta íslenskum börnum eftir efnahag.
Voru þingmenn sammála um að auknar rannsóknir þyrfti til á þessu sviði.