Mjög hefur færst í vöxt að eigendur íbúðahúsnæðis endurfjármagni fasteignir sínar í ljósi betri vaxtakjara sem nú bjóðast hjá viðskiptabönkunum, í samanburði við það sem þekktist á fjármálamarkaðnum fyrir nokkrum árum.
Þetta kemur fram í máli Yngva Arnar Kristinssonar, hagfræðings Samtaka fjármáalafyrirtækja í þættinum Afsal á Hringbraut í kvöld, en þar fer hann gjörla yfir það hvernig fasteignaeigendur geta hagrætt í bókhaldi sínu með þessum hætti.
Almennt séð virðist töluvert vera í húfi - og ekki óalgengt að betri vaxtakjör, sem nú bjóðast, lækki greiðslubyrði um 20 þúsund krónur á mánuði þar sem skuldahlutfallið er um eða innan við helmingur af fasteignaverði íbúðar.
Þá hefur fasteignaverð í vinsælustu hverfum landsins hækkað að miklum mun á síðustu árum - og aukið þar með veðhæfi íbúða, en hækkunin hefur numið allt að 40% á síðustu fjórum árum og spá greinendur á markaði enn frekari hækkun á næstu árum, jafnvel 30% hækkun á næstu tveimur árum.
Yngvi Örn segir í þættinum að almennt sé fólk að endurfjármagna fasteignir sínar til að lækka skuldahlutfall sitt og athyglisvert sé að almeenningur hugsi nú fyrst og fremst um það að lækka skuldir sínar, ólíkt því sem var fyrir tíu árum eða svo, þegar skuldaaukning almennings var mikil og almenn.
Afsal byrjar klukkan 21:30 í kvöld.