Farið hefur fé betra

Vigdís Hauksdóttir hefur staðfest að hún muni ekki reyna að ná endurkjöri til setu í borgarstjórn Reykjavíkur í vor. Samkvæmt nýlegri skoðanakönnun Stöðvar tvö hefði Miðflokkurinn ekki fengið mann kjörinn í borgarstjórn þannig að Vigdísi mátti vera ljóst að dagar hennar á þeim vettvangi væru senn taldir. Áður hafði hún lýst því yfir að hún ætlaði að halda áfram og myndi leiða lista flokksins í komandi kosningum. Eftir nokkra umhugsun sá hún í hvað stefndi og ákvað því að hætta sjálf í stað þess að falla í kosningunum.

Miðflokkurinn er að þurrkast út. Það kom skýrt fram í Alþingiskosningunum síðastliðið haust. Þróunin heldur áfram niður á við samkvæmt niðurstöðum skoðanakannana. Til viðbótar við þá almennu þróun hefur framkoma Vigdísar í borgarstjórn á kjörtímabilinu verið með þeim hætti að mikilvægt er að hún hverfi af þeim vettvangi. Hún hefur ekkert gagn gert sem borgarfulltrúi. Einungis haldið uppi rakalausum málflutningi og beinlínis ofstækisfullri umfjöllun um starfsfólk borgarinnar og meirihlutann í borgarstjórn.

Æ betur kemur í ljós að málflutningur minnihlutans í borginni hefur reynst gagnslaus og innstæðulaus með öllu. Vigdís, Eyþór Arnalds, Kolbrún Baldursdóttir og fleiri fulltrúar minnihlutans hafa aldrei fundið fjölina sína á kjörtímabilinu. Gagnrýni þeirra hefur einkennst af ofstæki, sem kjósendur hafa nú áttað sig á, þannig að ætla má að Sjálfstæðisflokkurinn tapi fylgi í komandi kosningum, Miðflokkurinn mun þurrkast út og Flokkur fólksins á í vök að verjast.

Vigdís kveður í vor eins og Eyþór Arnalds. Vonandi lætur Vigdís nú staðar numið í tilraunum sínum til pólitískra starfa á Íslandi. Hún hefur ekki bætt neinu við og mun ekki bæta neinu við ef hún freistar gæfunnar að nýju. Framsóknarflokkurinn hefur áttað sig á þessu en þangað er hún ekki velkomin að nýju. Jafnvel Sjálfstæðisflokkurinn mun ekki opna dyr sínar fyrir henni.

Vigdís hverfur af vettvangi borgarstjórnar í vor. Trúlega verður þá flaggað á ráðhúsi Reykjavíkur. Farið hefur fé betra.

- Ólafur Arnarson