Fjölmiðlamaðurinn Illugi Jökulsson birti í dag ansi fallega sögu af kettinum Kónguló á Facebook-síðu sinni.
Umræddur köttur var upprunalega í eigu Illuga en flutti síðan til nágrannans, þó hún hafi haldið sambandi við fyrrverandi eigendur sína.
Sagan sem hann segir varðar það þegar Kónguló varð kettlingafull og hvarf á óvæntan hátt. Kettlingarnir fundust síðan á óvæntum stað, og Kónguló á enn óvæntari stað.
Þessa fallegu sögu má lesa hér fyrir neðan:
„Það getur verið flókið að vera köttur. Hingað kom á heimilið fyrir þrem árum lítil svört læða sem fékk nafnið Kónguló. Af einhverjum ástæðum fór hún í taugarnar á öðrum gamla fressinum, sem hér hafa búið lengur en elstu menn muna, svo henni fannst hún líklega aldrei nógu velkomin.
Hún flutti sig því yfir til Andrésar nágranna míns hér í sama húsi og hefur búið þar við besta atlæti síðan, en kemur hingað í nær daglegar kurteisisheimsóknir, og þegar Andrés skreppur til útlanda flytur hún inn í nokkra daga. Þannig vill hún hafa það þótt gamli fressinn okkar sé raunar löngu hættur að abbast upp á hana.
Í fyrra eignaðist Kónguló kettlinga í fyrsta sinn og Andrés hugsaði vitaskuld um þá af kostgæfni, en sex vikna fluttu þeir til okkar og bjuggu hér þangað til þeim voru fundin ný heimili. Kónguló virtist hin ánægðasta með þetta allt saman.
Nú í sumarbyrjun var hún orðin kettlingafull og síðustu tíu dagana hefur hún snuddað víða, bæði hér uppi og hjá Andrési, greinilega að íhuga staði þar sem hún gæti átt nýju kettlingana. Hann var þó náttúrlega tilbúinn með góðan kassa fyrir hana.
Svo brá hins vegar við að frá þriðjudegi sást Kónguló hvergi og mér datt strax í hug að af einhverjum ástæðum, sem aðeins kettir skilja, hefði hún ákveðið að eignast kettlingana sína á einhverjum leynistað sem hún hefði fundið hér í nágrenninu.
Snemma föstudags auglýsti ég eftir henni á Facebook. Auglýsingunni var dreift víða og um kvöldmatarleytið hringdi ungur maður sem leigir íbúð hér í næsta húsi við Þingholtsstræti.
Hann hafði þá verið að koma heim til sín frá útlöndum klukkutíma fyrr, og fundið — sér náttúrlega til stórrar furðu — þrjá nýfædda kettlinga á rúminu sínu, og einhver hafði síðan bent honum á auglýsinguna frá mér. Þarna voru komnir nýfæddir kettlingar Kóngulóar, vel þrifnir og á sig komnir, tveggja eða þriggja daga gamlir.
Hin verðandi móðir hafði greinilega komist inn í tóma íbúðina gegnum gamla kattalúgu og ákveðið að einmitt þarna væri góður staður til að eignast kettlingana sína.
En hvar var Kónguló niðurkomin? Hún sást hvergi. Andrés nágranni minn flutti kettlingana yfir í kassann sem beið tilbúinn hjá honum og svo vonuðum við að Kónguló myndi brátt birtast. Hún hefði kannski laumast út frá kettlingunum til að finna sér eitthvað að borða (þó hún hefði ekki komið til okkar) og þegar hún mætti svo til leiks og sæi að kettlingarnir væru horfnir hlyti hún að leita þeirra fyrst hjá Andrési eða okkur.
En klukkutímarnir liðu og ekki birtist Kónguló. Þetta var orðið skrýtið. Það var farið að hvarfla að mér að hún væri kannski í felum í íbúðinni við Þingholtsstræti; hefði falið sig þegar hún heyrði að einhver kom þar inn — og viti menn, um tvöleytið í nótt hringdi ungi maðurinn úr næsta húsi og var þá kominn aftur heim til sín eftir að hafa skroppið út, og þegar hann hafði leitað hátt og lágt um íbúðina fann hann Kónguló, þar sem hún hírðist inni í rúmdýnunni í svefnberginu hans, þar sem kettlingarnir höfðu legið ofan á dýnunni.
Einhvers staðar á dýnunni var gat eða smuga sem hún hafði komist inn um.
Ég mætti svo á staðinn og í sameiningu tókst okkur að segja má að ýta aumingja kisunni eftir dýnunni og að gatinu, og loks skreiddist hún út. Þá náði ég henni og varð að halda henni fast, því hún var mjög stressuð en var þó alls ekki með nein læti eða hvæs eða klór.
Ég fór svo með hana yfir til Andrésar þar sem kettlingarnir þrír biðu hennar í kassanum sínum og urðu strax fagnaðarfundir með móður og afkvæmum.
Nú er þar allt í lukkunnar velstandi, Kónguló liggur malandi í kassanum og kettlingarnir eru hressir. Hún mun ekki fá að fara út næstu sólarhringa, ef hún skyldi allt í einu freistast til að rjúka með kettlingana sína aftur í felur, en allt lítur þetta vel út.
Við Andrés þökkum kærlega öllum þeim sem deildu auglýsingunni minni eftir Kónguló, sem varð til þess að ungi maðurinn í næsta húsi frétti hvers kyns væri, og þó þökkum við einkum og sér í lagi honum, sem sýndi endalausa góðvild og þolinmæði og hjálpsemi við þessar undarlegu og óvæntu aðstæður sem hann lenti allt í einu í.
Hann heitir Kári og er hér á fyrri myndinni með Kónguló eftir að við náðum henni úr rúminu, en Andrés tók seinni myndina rétt í þessu þar sem móðirin liggur makindaleg með afkvæmi sín.“