Það sætir tíðindum að langstærsti stjórnmálaflokkur landsins samkvæmt skoðanakönnunum skuli rökstyðja kúvendingu útvegsstefnu þjóðar með vísan í að koma verði böndum á „áróður og þrýsting“ útgerðaraflanna. Yfirlýsing Pírata kann að vera til marks um að raddir útgerðarmanna hafi mætt aukinni tortryggni meðal þjóðarinnar hin síðari ár. Vantraustið sem blossaði upp eftir hrun og beindist gegn stjórnvöldum og fjármálageiranum hefur að mati marga viðmælenda Hringbrautar nú skotið rótum gagnvart útgerðinni. Bankarnir fyrir hrun og útgerð dagsins í dag eiga það sameiginlegt að hafa klifað á látlausum ívilnunum af hálfu hins opinbera, en í tilfelli bankanna lauk þeirri göngu með einkavæðingu gróðans og þjóðnýtingu tapsins. Spurt er um almannahagsmuni.
„Þegar ríkið ákveður veiðigjöld hafa útvegsmenn og samtök þeirra gífurlega hagsmuni af því að þrýsta á stjórnvöld, hamast á almenningi með áróðri og skekkja bókhald sitt með ýmsum aðferðum til að stilla stöðunni þannig upp að útvegurinn líti út fyrir að vera illa greiðsluhæfur og rökstyðja þannig kröfur um lækkuð gjöld. Ef útvegurinn greiðir markaðsverð sem myndast á frjálsum uppboðsmarkaði á veiðiheimildum hvetur það útvegsmenn til að færa bókhald sitt í eðlilegt lag, sýna raunverulega rekstrarstöðu og mun leiða til eðlilegrar eiginfjármyndunar í greininni,\" segir í greinargerð Pírata um nýkynnta sjávarútvegsstefnu flokksins.
Aukin tortryggni kann að kynda undir umræðu um að bylta verði kerfinu. Innleystur hagnaður úr greininni hefur vakið hneykslun margra á sama tíma og leiðandi útgerðarmenn (og sumir pólitíkusar þeim tengdir) hafa gagnrýnt harðlega að samstaða Íslands með bandamönnum í alþjóðastarfi sé tekin fram yfir hagsmuni útgerðarinnar. Nú síðast hefur umræða um að útgerðarmennn eigi kröfu á bótum frá íslenska ríkinu þar sem stefnir í sölufall á makríl til Rússlands vegna yfirgangs Rússa í alþjóðamálum, vakið hörð viðbrögð og bylgju nýrrar tortryggni. Kjarninn kallaði síðastliðinn föstudag þá kröfu „glórulausar hugmyndir“ og „alveg ný viðmið í heimsku“. Sjávarútvegsráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, treystir sér ekki til að leggja fram frumvörp næsta vetur um stjórnun fiskveiða eða makrílveiðar. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Landssamband smábátaeigenda harma óvissuna eins og fram kom í fréttum Rúv í gær. Harmur íslenskra útgerðarmanna er ekki nýr af nálinni. Eitt dæmi er málshöfðun gegn ríkinu vegna sérstaka veiðigjaldsins á sama tíma og mikill arður úr hinni sameiginlegu auðlind landsmanna rennur um æðakerfi útgerðarmanna.
Ólík hlustun í góðæri eða hallæri
Útgerðarmenn eru ráðandi valdahópur í samfélaginu og það er ekki nýtt að þeir kvarti þráfaldlega undan ytri skilyrðum útvegarins. Þeir hafa sterka rödd inni á Alþingi þar sem sumir hafa gengið svo langt að upplýsa í ræðustóli Alþingis að þingseta viðkomandi byggist á að gæta hagsmuna sjávarútvegarins. Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, hefur lýst því yfir. Hann taldi þá uppljóstrun sína ekki í blóra við trúnaðareið þingmanna um að almannahagsmunir en ekki sérhagsmunir séu forsenda starfsins. Í huga Jóns virðast hagsmunir sjávarútvegarins almannahagsmunir. Það kann að vera til marks um þau nánu bönd sem tíðkast hafa milli stjórnmálastefnu Íslendingar og útvegsins.
Spurn eftir miðum á tónleika Grátkórsins hefur þó í seinni tíð farið þverrandi meðal almennings. Þegar bullandi góðæri er í greininni og arðurinn rýkur upp af miðunum nenna færri og færri að hlusta á sömu gömlu harmljóðin. Innmúraðar liðaskiptingar og sögulegt ástarsamband stjórnmálavalds og stórútgerðar heldur þó enn. Einn helsti hugmyndafræðingur Sjálfstæðisflokksins kallaði útgerðamenn „þjóðhetjur“ í pistli fyrir skömmu.
Arðræningja fólksins kalla aðrir þá en völd útgerðarmanna eru þó í huga flestra ekki bara af hinu illa, því í ýmsum byggðum úti á landi þakkar hluti almennings auðkýfingum útgerðanna þá byggðafestu sem enn fylgir sjávarútvegi víða um land. Tilkoma aflamarksins sem leysti sóknarmark af hólmi, aukinn útflutningur og meiri samkeppni um aðgengi að mörkuðum hefur m.a. orðið til þess að fyrrum blómlegar sjávarbyggðir eiga undir högg að sækja en kvótakerfið hefur styrkt aðrar byggðir í sessi. Ríkið beitir á köflum sértækum stuðningi t.d. í gegnum Byggðastofnun en í stað fyrri tíma þegar ríkið og sveitarfélög í formi bæjarútgerða héldu utan um greinina og hið opinbera bar ábyrgð á örlögum fólks með fiskveiðistefnunni, hefur á tiltölulega skömmum tíma orðið til valdaframsal á sama tíma og ný stétt auðkýfinga hefur í hendi sinni hvort byggð dafnar eða deyr. Frægur er sem dæmi umdeildur flutningur Vísis frá Húsavík sem reyndist Norðurþingi þung blóðtaka. Skuldsetning í greininni getur líka ráðið örlögum byggðalaga líkt og í Grímsey þar sem stærstu útgerðir skulda þrjá milljarða króna. Framtíð eyjunnar veltur á Íslandsbanka og/eða opinberri fyrirgreiðslu. Sægreifar hafa í dag ekki bara mikið að segja um útsvarstekjur sveitarfélaga og atvinnustig. Þeir hafa í sumum tilvikum leyst af þær skyldur sem fyrrum voru á hendi hins opinbera. Til eru bæjarfélög sem eiga megnið af öllu íþrótta- og menningarstarfi undir geðþótta útgerðarmanna. Sumir fara betur með slíkt vald en aðrir.
260 milljónir á dag
Aflaverðmæti íslenskra fiskiskipa árið 2014 nam rúmum 136 milljörðum króna skv. tölum Hagstofunnar. Það þýðir að hvern einasta dag ársins höfðu íslenskir útgerðarmenn að meðaltali 268 milljóna króna verðmæti upp úr krafsinu. Samt hefur heildarafli síðustu ár aðeins einu sinni verið minni en í fyrra. Á móti kemur að hærra verð fæst fyrir fiskinn en áður sem vegur nokkuð á móti minni afla. Afkomutölur HB-Granda í ár sýndu gríðarmikinn hagnað á fyrsta ársfjórðungi. Sölufall innlendra útgerða á makríl til Rússa mun ekki fita efnhagsreikningana að óbreyttu en að öðru leyti virðist bullandi góðæri í greininni. Annað sem vert er að huga að er að völd ríkustu útgerðarmannanna hafa vaxið og teygja sig víða yfir í aðra geira atvinnu- og viðskiptalífsins. Auðsöfnunin vekur upp áleitnar spurningar um jöfnuð og réttlæti, enda arðurinn tilkominn vegna nýtingar úr sameiginlegri auðlind allra landsmanna.
Kristján og „grátkórinn“
Kristján Ragnarsson var í eina tíð framkvæmdastjóri LÍÚ. Hann taldi að jafnaði þegar hann birtist í fjölmiðlum að ekki væri nóg fyrir útgerðina gert. Sigmund, skopmyndateiknari Morgunblaðsins, teiknaði Kristján iðulega með tár í augunum. Hugtakið „grátkórinn“ öðlaðist sess í íslensku máli vegna þeirrar framkomu sem talsmenn útgerðarinnar tömdu sér. Þeir sendu „hetjur hafsins“ á sjóinn en „grétu“ sjálfir söltum tárum yfir óréttlæti samfélagsins sem samkvæmt orðræðu þeirra sjálfra tefldi mikilvægustu atvinnugrein landsmanna í voða.
Oft tókst þeim að skapa samúð, enda þjóðin stolt af fiskiskipaflotanum, framförum, aukinni hagsæld og auknu sjálfstæði, ekki síst eftir glæsilega sigra Íslendinga í fordæmalausum þorskastríðum við Breta. Davíð sigraði Golíat. En nú mætti segja að hinn íslenski útgerðarmaður sé farinn að minna dálítið á fyrrum andstæðing sinn. Á sama tíma leggur stærsti flokkur landsins fram útvegsstefnu þar sem segir að samtök útgerðarmanna hafi „gífurlega hagsmuni af því að þrýsta á stjórnvöld, hamast á almenningi með áróðri og skekkja bókhald sitt með ýmsum aðferðum.“
Ekki lengur mikilvægasta greinin
Margar fréttir og fyrirsagnir hafa liðna áratugi verið skrifaðar þar sem orðræðugreining myndi gefa til kynna „hræðsluáróður“ útgerðarmanna. Ef það er við hæfi að nota slíkt orð má segja að þeim hafi þó orðið nokkuð ágengt. Útgerðarmenn hafa haft mikil áhrif á peningastefnu Íslendinga. Þannski er það þeim að þakka eða kenna að íslenska krónan er enn við lýði. Stjórnmálalífið hefur allt frá þeim tíma að vél var sett í fiskibát fyrir vestan árið 1902 og markaði sumpart upphaf iðnbyltingar hér á landi, tekið mið af vægi sjávarútvegar fyrir þjóðarbúið. Tengja má alþjóðaviðskipti með fisk og sjósókn með beinum hætti við þá breytingu þegar Ísland reis úr öskustónni sem eitt fátækasta ríki heims og varð á skömmum tíma efnað velferðarríki. Óðaverðbólga og ýmsir vaxtaverkir gerðu þó stundum vart við sig, ekki síst síðari áratugi síðustu aldar. Krónan var iðulega felld og þá einkum til að bæta afkomu útgerðarinnar. Hin síðari ár hafa skipaflauturnar verið þeyttar grimmt til að hamla inngöngu Íslendinga í ESB. Fiskveiðar voru enda helsta lifibrauð landsmanna og nánast eina gjaldeyrisauðlindin. Ferðaþjónusta hefur nú leyst sjávarútveginn af hólmi sem mikilvægasta atvinnugrein Íslendinga. Útgerðum hefur fækkað dag frá degi, hinir stóru orðið stærri og einyrkinn nánast horfinn af sjónum. Arðurinn úr fiskveiðiauðlindinni sameiginlegu vex og vex en deilist á æ færri hendur.
Nokkrir risar á markaði
Fimm stærstu útgerðir landsins miðað við úthlutaðan kvóta þeirra í ársbyrjun 2015 voru samkvæmt Fiskistofu í ársbyrjun eftirfarandi:
1.HB Grandi
2. Samherji
3. Síldarvinnslan
4. Vinnslustöðin
5. Ísfélag Vestmannaeyja
Kvótaþakið er 12% og hafa tvö stærstu útgerðarfélögin ítrekað verið nálægt því að reka kollinn upp í rjáfur, einkum ef tengd starfsemi er tekin með í reikninginn. Samþjöppun valds og peninga er þó ekki öll sögð með aflamarksheimildum útgerðarfélaganna. Sum félaganna eins og t.d. Samherji eru stórtæk í öðrum umsvifum. Samherji keypti meirihlutann í Slippnum á Akureyri í upphafi ársins. Félagið á einnig mörg önnur félög, stóran hlut í Olís og tengist mjög útgáfu Morgunblaðsins svo fátt eitt sé nefnt. HB-Grandi hefur víða ítök og Skinney-Þinganes keypti fyrir nokkrum dögum Auðbjörgu frá Þorlákshöfn með fyrirvara um samþykki samkeppnisyfirvalda. Skinney mun ef yfirvöld blessa söluna fara upp í 6.-7. sætið á lista stærstu útgerðarfélaga landsins. Félagið hefur haslað sér völl í landbúnaði með risafjárfestingu í stærsta kúabúi landsins fyrir austan þar sem gert er ráð fyrir 300 mjólkurkúm á einu og sama búinu. Venjan er að stærri félög kaupi hin minni upp. Fleiri sterk félög mætti nefna svo sem ítök KS í skagfirsku héraði. Um eigendur Vinnslustöðvarinnar hf. í Vestmannaeyjum er það að segja að samkvæmt DV hafa þeir fengið tæpa 4,3 milljarða króna í arð út úr fyrirtækinu sl. fjögur ár en á sama tímabili hefur fyrirtækið greitt 1,7 milljarða króna í veiðigjald. „Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa gagnrýnt veiðigjaldið harðlega og þá sérstaklega sérstaka veiðigjaldið sem lagt var á sjávarútvegsfyrirtæki á fiskveiðiárinu 2012–2013. Vinnslustöðin stefndi ríkinu í fyrra vegna sérstaka veiðigjaldsins, á þeim forsendum að það stangaðist á við stjórnarskrá, og krefjast þess að fá ríflega hálfan milljarð endurgreiddan,“ segir í nýlegri frétt DV.
Djúpstæð pólitísk óánægja
Í viðtali við Ríkisútvarpið 3. september sl. skýrði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, dvínandi fylgi sjálfstæðismanna með því sem gerðist í samfélaginu hrunárið 2008. Bjarni gat þess í engu þegar fréttamaður leitaði skýringa á minnsta fylgi flokksins í sjö ár, að ekkert hefði gengið að ná sátt um breytingar á fiskveiðikerfinu þrátt fyrir ákall margra, hvað þá að almenningur teldi sig hlunnfarinn á sama tíma og útgerðir skila methagnaði. Ef marka má umræðu á samfélagsmiðlum eru fá deilumál stærri í samfélaginu en óréttlætið sem margir sjá í því að innan við 100 útgerðarmenn deili og drottni að mestu yfir hafinu. Daglega er rifjað upp að eitt fyrsta verk ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugassonr hafi verið að lækka veiðigjöld á útgerðarmenn. Síðan hefur þeim gengið flest í haginn. Nú þegar horfir í að þeir missi einn spón úr askinum er farið fram á bætur fyrir makrílinn.
Píratar vilja að allar fiskveiðiheimildir verði leigðar út og að þjóðin fái leigutekjurnar. Eftir að sjávarútvegsstefna Pírata var kynnt opinberlega óx fylgi þeirra milli kannana. Gömlu deilumálin um kvótakerfið hverfðust mörg hver um yfirgengislegt brottkast og byggðaraskanir. Hin nýju gagnrýnisrök hníga að misskiptingu auðsins og að almenningur fái ekki í sinn hlut nóg. Það eru rök sem erfitt verður fyrir valdamestu stjórnmálamenn landsins að hundsa frekar þrátt fyrir ramakvein útgerðarmanna.
Hagfræðingur: Uppboð myndi auka hag almennings
Umræða um fiskveiðikerfið er gjarnan í æsifréttastíl og það er óljóst hvort almenningur telur sig raunverulega vita hvort það yrði þjóðarbúinu til góðs að gera breytingar á kerfinu, t.d. ef allur fiskur yrði boðinn upp í samræmi við kröfu Pírata. Hringbraut hafði samband við Jón Þorvald Heiðarson, hagfræðing við Háskólann á Akureyri, en hann hefur meðal annars rannsakað sjávarútveg á Íslandi. Jón Þorvaldur segir að hvað varði hagkerfi Íslands í heild sé óljóst hvort það myndi breyta nokkru ef leið Pírata næði fram að ganga og ef fiskveiðiheimildir yrðu allar boðnar upp á markaði. Sá mikli arður sem útvegsmenn fái í dag sé þegar innan hagkerfisins, burtséð frá dreifingunni. Fyrsta ályktun sé að uppboðsleiðin myndi hvorki stækka né minnka hagkerfið. Hagfræðingurinn bætir þó við að málið sé nokkuð flókið og að rækileg skoðun gæti leitt annað í ljós. „Þetta er meira spurning um hvað sé sanngjarnt. Það er hvort fáir fái gróðann eða allir Íslendingar,“ segir Jón Þorvaldur sem gegnir lektorsstöðu í hagfræði við Háskólann á Akureyri.
En leggur hann mat á, eins og staðan er í dag, hvort staðhæfa megi að kalla megi almenning hlunnfarinn sínum arði eins og oft heyrist í umræðu um galla núverandi fiskveiðikerfis? „Það er alveg ljóst að ef við erum sammála um að allir Íslendingar eigi auðlindina að þá myndu þeir fá meira í sinn hlut með uppboðsleiðinni,“ svarar hagfræðingurinn. Gróðinn sé það mikill í greininni að raunverulegt verðmæti veiðiheimilda virðist vera mikið þótt það gæti breyst.
Gætum aukið þjónustu eða lækkað skatta
„Hvað myndi tapast og hvað myndi ávinnast ef fiskveiðikerfinu yrði kúvent? Ávinningurinn fyrir almenning yrði að þá kæmi meira fjármagn inn í ríkissjóð - eða beint til almennings - það væri hægt að greiða arðinn beint til allra íbúa eins og Pétur Blöndal vildi - sem þýddi að við gætum aukið þjónustu ríkisins eða lækkað skatta,“ segir hagfræðingurinn.
Jón Þorvaldur segir að bæði skattalækkun og aukin þjónusta ríkisins myndi auka lífskjör almennings. „Bein arðgreiðsla eykur líka lífskjör og ríkið fengi sinn skerf og það sem meira er, sveitarfélögin líka. Ef allt fer inn í ríkiskassann fá sveitarfélög ekki neitt. Þessi pæling hvort arðurinn fari til ríkisins eða einstaklinganna beint er efni í sérumfjöllun. Með uppboði yrði meiri stöðugleiki í útvegnum. Nú þýðir t.d. hærra olíuverð minni arð sjávarútvegsfyrirtækja. Með uppboði myndi hærra olíuverð fyrst og fremst þýða að verð á veiðiheimildum myndi lækka, útvegsfyrirtækin myndu ekki bjóða hærra í heimildirnar en svo að þau gætu lifað þokkalegu lífi rekstrarlega. Hinar ytri sveiflur myndu þá koma fram í veiðigjöldunum, arðinum til þjóðarinnar en minna í greininni sjálfri.“
Myndi auka gagnsæi
Hagfræðingurinn segir að bent hafi verið á að það sem gæti tapast væri að útvegurinn hefði minna fé aflögu t.d. til að setja í vöruþróun og markaðsstarf. „Hvort tveggja hefur verið lykillinn að hinum mikla arði í greininni þar sem tekist hefur að selja afurðir á mjög háu verði. Þessu væri hægt að mæta að einhverju leyti með sjóði sem hluti gjalds fyrir veiðiheimildir færi í og útvegurinn gæti sótt í til að stunda sérstaklega vöruþróun. Einnig hefur verið bent á að sjávarútvegsfyrirtæki í minni byggðum veiti töluverðu fé til samfélagsins t.d. með því að styrkja íþróttalið, ýta undir nýsköpun og margt fleira. Það gæti minnkað.“ Spurður um byggðaáhrif ef kerfinu yrði kúvent, segir lektorinn: „Sjávarútvegur er nú ekki bundinn byggðum, uppboð ætti því ekki að breyta miklu hvar hann er stundaður. Með uppboði væri þó hægt að búa til mun heilbrigðari úrlausnir fyrir mismunandi byggðir. T.d. ef við vildum styðja Vestfirði þá gætum við bundið hluta kvótans þar og hann yrði seldur hæstbjóðanda sem vildi vinna hann þar. Það yrði síðan mjög gagnsætt hvað sú byggðaaðgerð kostaði með því að skoða mismuninn á Vestfjarðaverðinu og landsverðinu á veiðiheimildum.“
Methagnaður félögunum dýr?!
Það verður forvitnilegt að fylgjast með átökunum um útveginn fram að þingkosningum. Verður þar vafalítið tekist á um það sem skóp veldi sægreifanna, hvort „eðlileg eiginfjármyndun“ hafi átt sér stað eins og Píratar setja spurningarmerki við í greinagerð sinni með nýrri sjávarútvegsstefnu. Methagnaður útgerðanna gæti hæglega orðið þeim að falli í þeim skilningi að rof sé að skapast milli almennings og útgerðanna, að traustið sé á hröðu undanhaldi og að það muni flýta fyrir breytingum. Eins og einn gagnrýnandi núverandi stefnu í hópi stjórnarandstöðunnar orðaði það: „Það myndi seint duga Donald Trump að hvetja almenning til fjársöfnunar fyrir hann sjálfan – og seint myndi honum sennilega detta það í hug – ólíkt íslenskum útgerðarmönnum.“
Tekjur HB-Granda á fyrstu þrem mánuðum ársins voru 53,3 milljónir evra eða rétt tæpir 8 milljarðar króna. Hreinn hagnaður á tímabilinu var 13,8 milljónir evra eða liðlega 2 milljarðar króna. Ekki var getið um hve mikið félagið greiddi í veiðigjöld fyrstu þrjá mánuði ársins en Samherji gat veiðigjaldanna samviskulega þegar félagið birti nýverið efnahagsuppgjör félagsins og dótturfélaga fyrir síðasta fiskveiðiár. Hreinn hagnaður Samherja og dótturfélaga var rúmir 11 milljarðar króna fyrir árið 2014 en Samherji greiddi 900 milljónir króna alls í veiðileyfagjald á síðasta ári. Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, svaraði ekki fyrirspurn Hringbrautar um hvernig félagið myndi meta þær breytingar sem yrðu á starfsemi leiðandi fyrirtækja ef uppboðsleiðin verður farin. Aðrir útgerðarmenn sem samband náðist við sögðu framtíðarhorfur „viðkvæmar“ en vildu lítið láta hafa eftir sér.