Fæði hefur áhrif á fjölda adhd-barna

Í grein sem birtist í Pscycology Today fyrir nokkru birtast niðurstöður sem velta upp spurningum um meðferð barna sem greind hafa verið með ADHD.

Þar segir frá franskri nálgun sem leitast við að skoða félagslegt samhengi  ADHD-barna án þess að Frakkar beiti lyfjagjöf nema í undantekningartilfellum. Frakkar neiti að líta svo á sem um heilasjúkdóm sé að ræða. Það er ein ástæða þess að í Bandaríkjunum er hlutfall greindra barna með ADHD um 9% allra barna á skólaaldri og njóta þau lyfjagjafar. Í Frakklandi er sama hlutfall innan við 0,5%. Munurinn er sláandi eða átjánfaldur.

Fram kemur að vísindamenn og lækna greini á um hvort ADHD sé taugalíffræðilegt ástand sem kalli á lyfjagjöf eða hvort ADHD sé félagsleg birtingarmynd sem í fæstum tilvikum þurfi lyf til að ráða bót á. Hér á landi er rítalín mikið notað í meðferðarskyni við ADHD og hefur fjöldi íslenskra foreldra stigið fram og þakkað  greiningu og lyfjagjöf sem breytt hafi lífi barna og fjölskyldu mjög til hins betra. En þeir eru líka til sem vara við lyfjameðferð án þess að ýmis önnur úrræði hafi verið reynd. Í greininni í Pshycology Today segir að franskir barnageðlæknar einblíni á undirliggjandi félagsaðstæður barna sem sýni einkenni um ADHD. Geðræn meðferð án lyfjagjafar sé helsta trompið. Þetta sé allt önnur nálgun en t.d. í Bandaríkjunum þar sem litið er á ADHD sem líffræðilega skerðingu, e.k. efnafræðilegt ójafnvægi í heila barna.

Fram kemur í greininni að sakir þess hve Frakkar ráðist fljótt og með áhrifaríkum meðferðarhætti gegn börnum sem sýni einkenni ADHD sé niðurstaðan sú að í fæstum tilfellum hljóti frönsk börn þá endanlegu greiningu að hafa sjúkdóminn. Fram kemur að franska aðferðin snúist um heildræna nálgun eða holistic approach sem miði m.a. að fjölskylduráðgjöf og horfi mjög til næringar í fæði barna, litarefna, rotvarnarefna og fæðuofnæmis.

Meiri agi gagnvart mataræði er nefndur til sögunnar Frökkum í vil í samanburði við BNA. Sem dæmi er nefnt að franskir krakkar fái ekki „snakk“ þegar þeir vilji, að frönsk börn læri þolinmóð að bíða eftir matartímum þar sem mikið sé lagt upp úr hollustu.

\"Heimspekilegur agi franskra barna er ólíkur amerískum börnum,“ segir m.a. í greininni sem leiðir hugann að samanburði Íslands og Frakklands á þessu sviði.

Hringbraut bar málið undir Tryggva Ingason, sálfræðing í Reykjavík, sem hefur starfað við greiningar grunnskólabarna. \"Langtíma rannsóknir sýna ad börn með ADHD sem fá lyfjameðhöndlun eru í minni hœttu að leiðast út í neyslu og eru líklegri til að klára nám en börn sem ekki fá lyf,\" segir Tryggvi.

Hann segir mikilvægt að ræða þessi mál en hann telji sjálfur að franska leiðin sé ekki endilega málið. \"Ég myndi vilja fá að vita meira um aðra þætti, s.s. hvernig tekist er á við námslega vandann, hvað er gert við börnin sem geta ekki einbeitt sér og eiga ekki séns að fylgja öðrum nemendum eftir þrátt fyrir að búa yfir góðri greind.\" Einnig fylgi oft kvíði og lágt sjálfsmat. \"Að ná ekki að standast undir kröfum getur verið þungt fyrir þessi börn,\" segir Tryggvi.

Tryggvi telur að Ísland sé ekki á villigötum með lyfjastefnu gagnvart ADH-börnum en segir þó mikilvægt að vera gagnrýnin og opin fyrir ólíkum leiðum og nálgunum.

\"Það er alltaf stefnt að því að vera með íhlutun og vinna með umhverfið fyrst bæði í skóla og á heimili. Það hefur mikið aukist að vera með foreldrafærnisnámskeið, s.s. PMTO og SOS. Einnig eru til námskeið fyrir krakka með ADHD,\" segir Tryggvi og leggur áherslu á að hér á landi sé langt í frá að foreldrar séu firrtir ábyrgð af örlögum eigin barna þegar meðhöndlun við ADHD sé annars vegar.