Fá stjórnmálamennirnir uppreista æru?

Nú hefur verið boðað til kosninga 28. Október. Eftir fréttum að dæma ætla flestir alþingismenn að bjóða sig fram aftur. Einhverjir gamlir raftar fá þó ekki pláss á listum flokka sinna eins og greint hefur verið frá hér á Hringbraut, þar er fremstur meðal jafningja sjálfur Össur, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi ráðherra og hverfur þá með margra áratuga reynslu af þingi.


Menn hafa auðvitað mismunandi skýringar á því að nú er allt í loft upp í íslenskum stjórnmálum. Mörgum ber þó saman um að reynsluleysi stórs hluta þingmanna, rótleysi og jafnvel stefnuleysi og tækifærismennska spili þar drjúgt hlutverk.
Störf þingsins hafa ekki vakið þá tilfinningu hjá almenningi að þar sé fólk saman komið í þeim einlæga vilja að vinna þjóð sinni gagn og stuðla að framgangi þjóðþrifamála. Sumir hafa haldið hinu gagnstæða fram.


Alþingi því sem enn situr og fær lausn 28. Október hefur jafnvel enn frekar en fyrri þingum verið líkt við sandkassa, með alls engri virðingu fyrir því fyrirbæri, jafnvel með innilegri fyrirlitningu.


Nú skal semsagt kjósa, næstum fyrirvaralaust, og sama fólk í kjöri. Þá er stóra spurningin þessi: Fær þetta fólk æru sína sem þingmenn uppreista? Munu kjósendur sætta sig við að kjósa aftur sama liðið sem leiddi til þessarar niðurstöðu, sem við nú sitjum uppi með?

rtá