Fyrr í vikunni ítrekaði Hringbraut.is óskir um það að Eyþór Arnalds svaraði fyrirspurnum um fjárhag Becromal á Akureyri en hann var stofnandi verksmiðjunnar, formaður og stór hluthafi. Fjárhagur Becromal er skelfilegur, samkvæmt upplýsingum úr riti Frjálsrar verslunar.
En Eyþór velur að stinga höfðinu í sandinn. Hann svarar engu um þetta fyrirtæki.
Það er mikilvægt í ljósi þess að hann hefur við hátíðleg tækifæri fullyrt að hann hafi ekkert að fela varðandi viðskiptaferil sinn. Þá hafa sjálfstæðismenn og Morgunblaðið stöðugt reynt að halda því fram að brýnt væri að taka til í fjármálum Reykjavíkurborgar og að Eyþór væri vel til þess fallinn.
Becromal tapaði 5.2 milljörðum króna árið 2016 og er með neikvæða eiginfjárstöðu upp á 4.5 milljarða. Skuldir umfram eignir með öðrum orðum. Hins vegar skilaði Reykjavíkurborg undir forystu Dags 28 milljarða afgangi í fyrra!
Það eykur ekki á laskaðan trúverðugleika Eyþórs að hann skuli ekki þora að svara fyrir vafasaman viðskiptaferil sinn - eins og hann hefur þó lofað.
Kjósendur láta ekki blekkjast eins og fram kemur í nýjustu skoðanakönnunum sem sýna Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík með minna fylgi en 2014 sem var það langminnsta frá upphafi.
Reykvíkingar þurfa ekki á neinni Becromal-fjármálastjórn að halda á vegum Eyþórs Arnalds.
Sjá nánar frétt um málið frá 15. maí.
http://www.hringbraut.is/frettir/eythor-hefur-ekki-enn-svarad-fyrir-stortap-og-skuldir-becromal
Rtá.