Eyþór hljóp á sig

Dagur Eggertsson lét henda Eyþóri Arnalds út úr Höfða þegar hann ætlaði að troða sér inn á fund núverandi borgarstjórnar Reykjavíkur með þingmönnum kjördæmisins. Fjölmiðlar greindu frá þessu í dag. 

Um var að ræða vinnufund núverandi borgarstjórnar með Alþingismönnum Reykjavíkur. Eyþór var að sjálfsögðu ekki boðaður á fundinn frekar en aðrir utan hóps núverandi borgarfulltrúa.

Með því að mæta eins og kjáni hljóp Eyþór illilega á sig og sýndi að hann á ekkert erindi á stóra sviðið sem forystumaður.

Framkoma hans verður varla skýrð með öðru en stressi en mikill skjálfti fer nú um sjálfstæðismenn í Reykjavík eftir að fram kom að Vigdís Hauksdóttir muni leiða lista Miðflokks í Reykjavík en hún er talin munu taka fylgi sitt beint frá Sjálfstæðisflokknum.

Ekki má ætla Eyþóri að hann sé svo mikill kjáni að hann skilji ekki muninn á núverandi borgarfulltrúum og tilvonandi fulltrúum frá og með næsta sumri.

Þá er ekki útilokað að gamall flokkshroki hafi tekið sig upp hjá Eyþóri verðandi leiðtoga stjórnarandstöðunnar í borginni.

Ekki jókst virðing hans við þessa sneypuför.

Því var Eyþór ekki bara áfram á Selfossi?

Rtá.