Í dag var greint frá því að Eyþór Arnalds hafi “keypt” 26% hlutafjár í útgáfufélagi Morgunblaðsins af Þorsteini Má Baldvinssyni í Samherja og félögum tengdum honum. Ekki var skýrt frá kaupverði en ekki er gert ráð fyrir að það hafi verið mikið þar sem um samfelldan taprekstur á fyrirtækinu hefur verið að ræða um árabil.
Fyrirtæki sem stöðugt er rekið með tapi getur ekki verið mikils virði. Morgunblaðið hefur hins vegar verið notað í grímulausum áróðri fyrir hagsmunum tengdum sjávarútvegi og landbúnaði. Eigendur hafa flestir komið úr þeim atvinnugreinum og lagt fyrirtækinu til aukið hlutafé til að mæta dapurlegum rekstri.
Vitað er að Þorsteinn Már hefur viljað losna frá þessum rekstri og ekki verið alveg sáttur við þróun mála hjá Árvakri sem er útgáfufélag blaðsins. Óskar Magnússon, vinur Þorsteins, hvarf frá blaðinu árið 2015.
Eflaust hefur verið mikið vandaverk að finna einhvern til að halda á umræddum eignarhlut. Eyþór Arnalds hefur verið sporléttur í margháttuðu snatti fyrir Sjálfstæðisflokkinn og flokkseigendur þar á bæ. Hann kom að sveitarstjórnarmálum í Árborg á sínum tíma, var skipaður formaður Þjóðleikhússráðs þegar Illugi Gunnarsson lenti ógöngum með þá embættisskipan. Einnig var Eyþóri falið að fara fyrir nefnd sem átti að gera úttekt á úttekt sem aðrir gerðu um RÚV en ekkert kom út úr því starfi. Þá var Eyþór í kosningastjórn Davíðs Oddssonar í forsetakosningunum vorið 2016 en Davíð galt afhroð í þeim kosningum eins og kunnugt er, náði fjórða sætinu og hlaut einungis stuðning 13,4% kjósenda.
Eyþór Arnalds er vel metinn sem hljómlistarmaður. Hann er hámenntaður sellóleikari, starfaði um tíma í Sinfóníuhljómsveit Íslands, en þekktastur er hann fyrir feril sinn með hljómsveitinni Todmobil.
Pólitískur metnaður Eyþórs var mikill og hófst fyrir alvöru þegar hann var kjörinn í sveitarstjórn Árborgar. Hneykslismál olli því hins vegar að hann varð að taka sér leyfi frá störfum þar eftir að hafa ekið ölvaður á ljósastaur við Kleppsveg í Reykjavík. Hann kom þó til starfa að nýju í sveitarstjórn Árborgar en ekki varð af áformum um að bjóða sig fram til Alþingis fyrir Suðurland eins og margir töldu að hugur hans stæði til.
Eyþór Arnalds er “innvígður og innmúraður” í flokkseigendafélagið og því er honum treyst fyrir að halda á 26% hlut í Morgunblaðinu.