Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins (SA), hefur ákveðið að gefa áfram kost á sér til formennsku samtakanna, en kjör formanns fer fram í aðdraganda aðalfundar SA sem fer fram þann 16. maí. Þetta kemur fram í tilkynningu frá SA.
Eyjólfur Árni er byggingarverkfræðingur að mennt. Hann hefur undanfarna þrjá áratugi sinnt stjórnunarstörfum í íslensku atvinnulífi. Hann var forstjóri Mannvits hf. og forvera þess félags í 12 ár til ársloka 2015. Hann hefur síðan sinnt ráðgjafa- og stjórnunarstörfum. Eyjólfur Árni hefur verið í stjórn SA frá 2014 og í framkvæmdastjórn frá 2016. Þá hefur hann verið formaður samtakanna frá árinu 2017.
Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins:
„Þetta var harður vetur sem einkenndist af átökum og sáttaleiðum. Einstök samstaða myndaðist á meðal fyrirtækja í Samtökum atvinnulífsins þegar óvíst var hvort átök á vinnumarkaði myndu hafa lamandi áhrif á samfélagið. Það er meðal annars sú mikla samstaða sem gerir þetta starf skemmtilegt og gefandi, en verkefnin fram undan eru ærin og fjölbreytt. Það er mér því sannur heiður að gefa áfram kost á mér sem formaður Samtaka atvinnulífsins.”