Eyðslufyllirí og kjördæmapot á kostnað skattgreiðenda á kosningavetri

Af lestri blaðsíðu tvö í Morgunblaðinu í morgun mætti draga þá ályktun að efnahagsástandið hér á landi sé með þeim hætti að helsta forgangsverkefni í hagstjórninni sé að efla með öllum tiltækum ráðum verklegar framkvæmdir og spýta peningum inn í hagkerfið til að freista þess að koma smá lífi í það og reyna að vinna hagkerfið út úr djúpri kreppu.

Einnig mætti draga þá ályktun að fram undan sé kosningavetur og hér sitji vinstri stjórn sem ætli að nýta hvert tækifæri og hverja krónu (líka þær sem ekki eru til) til að kaupa sér atkvæði á kostnað skattgreiðenda í landinu.

Efsta frétt á síðunni er að ástandið á veginum við Strákagöng á leiðinni milli Siglufjarðar og Skagafjarðar á Tröllaskaga sé viðsjárvert. Bjarni Jónsson, þingmaður Skagfirðinga og formaður Samgöngunefndar Alþingis, segir ljóst að bregðast þurfi hratt veið „þeirri alvarlegu stöðu sem komin er upp.“

Hann segir að nú þurfi að endurskoða samgönguáætlun og forgangsraða í þágu öryggishagsmuna. Þingmaðurinn vill að ríkið rjúki nú í að bora ný göng sunnar á skaganum, sem áætlað er að kosti 19 milljarða.

Stöldrum aðeins við. Er bráðnauðsynlegt að halda leiðinni milli Siglufjarðar og Skagafjarðar opinni? Ekki er nema rúmur áratugur síðan Héðinsfjarðargöng (sem á núvirði kostaði u.þ.b. 25 milljarða að gera) voru opnuð, en þau opna greiða leið milli Siglufjarðar og Akureyrar. Vitaskuld er leiðin lengri í gegnum Héðinsfjarðargöng en að aka í gegnum Tröllaskaga, en hún er örugg og traust. Öryggishagsmunir þeirra sem þurfa á milli Skagafjarðar og Siglufjarðar eru því fullkomlega tryggðir þótt vegurinn um Strákagöng lokist eða hverfi. Sé talin öryggisógn af þeim vegi er eðlilegt að loka honum og vísa umferð um Héðinsfjarðargöng.

Sé markmiðið að tryggja góðar samgöngur milli fimm stjörnu lúxushótelsins í Fljótunum og Siglufjarðar má benda formanni samgöngunefndar á að þeir sem gista á því hóteli fara sinna ferða á þyrlum.

Á sama tíma og þingmaður Skagfirðinga vill forgangsraða nýjum göngum til Siglufjarðar, þar sem fyrir eru fullkomin, örugg og nýtískuleg göng, er hringvegurinn í molum og stórhættulegur á löngum köflum. Vegirnir á Snæfellsnesi eru ónýtir og stórvarasamir. En, nei, heim í kjördæmið skulu samgöngupeningarnir fara.

Næsta frétt fyrir neðan á síðunni er að nú stendur ekki til að reisa einn þjóðarleikvang í Laugardalnum. Tveir skulu þeir vera.

Hirðuleysi þingmanna í meðferð almannafjár og kjördæmapot er með einstökum ólíkindum. Í Suðurkjördæmi hyggst dómsmálaráðherra, sem er þingmaður kjördæmisins, láta reisa nýtt fangelsi að Litla Hrauni fyrir marga milljarða þegar öll heilbrigð skynsemi segir okkur að fangelsið væri betur komið á Hólmsheiði þar sem þegar er fyrir nýlegt fangelsi og samnýta mætti sameiginlega innviði. Fangelsi á Hólmsheiði er mun nær dómstólum höfuðborgarsvæðisins, heilbrigðisþjónustu og annarri þjónustu sem máli skiptir. Af þessu leiðir að nýtt fangelsi að Litla Hrauni verður mun dýrari og óhagkvæmari kostur en nýtt fangelsi á Hólmsheiði.

Nú ríður á að þingmenn stjórnarandstöðunnar standi með skattgreiðendum gegn óráðsíu vinstri stjórnar VG, Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins á kosningavetri.

– Ólafur Arnarson