Nokkrir fjölmiðar á landinu hafa fjallað um tengsl peninga, það er styrkja frá útgerðinni við málflutning einstakra þingmanna í Rússamakrílsdeilunni.
Þá getur verið gott að skoða landið og hagsmunina í sögulegu ljósi.
Sagt hefur verið um Ísland uppgangsáranna að okkur láti einkar vel að leika tveimur skjöldum, við höfum verið flink í að hámarka eigin hagsmuni í viðskiptum bæði austur og vestur í skjóli hentistefnu.
Hernaðarleg mikilvæg staðsetning Íslands í veröldinni skóp okkur þennan séns. Í raun hálfgerður grís. Allt frá því að hernám Breta hófst varð gríðarinnspýting og lauk því fjöri öllu ekki fyrr en fyrrum forsætisráðherra, sem nú keyrir Moggann áfram, kraup á kné fyrir framan Bandaríkjaforseta, en varð eigi að síður að veifa gúddbæ til Varnarliðsins.
Þegar herinn kvaddi steig ekki hæst hamingjan yfir auknum friði í veröldinni hér á landi. Áherslan hafði verið að koma í veg fyrir að milljarðar töpuðust fyrir þjóðarbúið okkar af veru hersins. Við töpuðum.
Enda órofa búið að kenna okkur að tengja öll umsvif útlendinga aðeins við ábata fyrir Ísland. Annars mega þeir í meginatriðum eta það sem úti frýs.
Ef herinn og öll verkefnin sem fylgdu honum hefðu ekki höggvið á kreppuna laust fyrir 1940 værum við sumsé allt önnur þjóð. Þökk útlendingum urðum við rík að veraldlegum gæðum en þetta nýja fyrirbrigði, efnishyggjan, hjó e.t.v. ögn í okkar andlegu hugsun og sendi villandi skilaboð.
Það var okkar happ að krúttlega Ísland reis upp úr sjónum á háréttum stað þegar stríðið skall á. Í kjölfarið kom Kalda stríðið eins og svalandi Coke.
En við höfum aldrei látið duga að líta aðeins í westur. Við erum svo klár vegna samkeppni um okkur að við höfum lært að horfa í allar áttir. Líka austur. Þar sem peninga og viðskipta er von, þar erum við geim. Stóran hluta af rússneskum bílaflota landsmanna áður má sem dæmi skýra með sölu á síld til Rússa, vöruskipti voru okkar háttur lengi. Og þetta hefur tekist ágætlega í praxís, verst að stefnan er stundum dálítið ógöfug þegar kemur aðalþjóðapólitík og skuldbindingum. En horfandi bæði til austurs og vesturs hefur alþjóðaumhverfið að mestu farið um okkur mjúkum höndum, litið undan brestum, dyntum og hentistefnu þessarar örþjóðar okkar - þökk sé hagsmunum stórveldanna.
Svo kom EES, aukin hnattvæðing og það fór að verða snúnara að halda uppi sömu siðum og dyntum og áður. Erfiðara að sigla undir fölskum flöggum eða hálfkveðnum vísum. Svo skall hrunið á og helvítis Icesave. Krúttíminn virtist liðinn. Unglingnum Íslandi var á einu augabragði skipað að fullorðnast.
Ein af skyldum fullorðinsáranna er að axla ábyrgð, horfa fram. Starfa af heilindum með bandalögum góðs málstaðar, velja sér lið.
Í umræðu um makrílinn er mikilvægt að minnast þess að okkar lið eru bandamenn, ekki Rússar.
Að meta prinsipp okkar og alþjóðaskuldbindingar með andvirði nokkurra fiska, stuðning við þann hluta alþjóðasamfélagsins sem við tilheyrum helst og er mestur siðferðslegur akkur til langframa, er vissulega afar ógöfugt og barnalegt. En sagan skýrir þetta allt.
Í raun hefur atburðarásin vegna makrílsins verið afskaplega fyrirséð. Fyrst hjóla útgerðarmenn og Mogginn í utanríkisráðherra fyrir að gera hið augljósa og rétta, að standa með bandamönnum, mótmæla drápum, morðum, yfirgangi hins illa Pútíns. Svo stíga fram þingmenn eftir að útgerðarmenn eru búnir að kúka upp á bak með eigin heimssýn. Allt ósköp fyrirsjáanlegt en líka enn eitt tilefnið til að rifja upp orð Styrmis Gunnarssonar úr Rannsóknarskýrslunni: „Ég er búinn að fylgjast með þessu í 50 ár. Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska og valdabarátta.“
Í Stundinni hefur birst samantekt þar sem fram kemur aðJón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er efstur á blaði yfir þá sem þiggja styrki frá útgerðum. „Alls styrktu sjö sjávarútvegsfyrirtæki prófkjör hans um samtals eina milljón krónur. Framboð Jóns var jafnframt það dýrasta í suðvesturkjördæmi, að því er fram kemur í frétt Viðskiptablaðsins,“ segir Stundin. Jón er vitaskuld ósammála Gunnari Braga. Svo miklir hagsmunir séu í húfi að einn maður geti ekki tekið slíka ákvörðun.
Annar þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur verið áberandi í andstöðu sinni gegn viðskiptaþingunum gagnvart Rússlandi. Stundin bendir á að hann heiti Ásmundur Friðriksson og fékk 450 þúsund krónur frá fimm sjávarútvegsfyrirtækjum fyrir síðustu kosningar, upphæð sem nemur tæpum helmingi fyrirtækjastyrkja sem prófkjör hans hlaut.
Svo er Bjarni Ben líka hugsi yfir þessu öllu. Eftir því sem Stundin bendir á fékk Sjálfstæðisflokkurinn árið 2014 7,2 milljónir frá sjávarútvegsfyrirtækjum, sem er tæplega fjórðungur allra styrkja fyrirtækja til flokksins.
Í þetta þarf sérstaklega að rýna til að skilja hvað er að gerast en skoða um leið hið sögulega samhengi, skortinn á prinsippum sem er jafngamall uppgangsárum Íslendinga.
Það er meira en að segja það að bíta í hendina sem brauðfæðir þingmenn, sömu hendi og á fulla vasa af peningum þegar prófkjör fara fram og framhaldslíf þingmanna getur oltið á fjárstuðningi.
Í einni sögu Nýja testamentisins (4:5-8) segir af Satan og Jesú þegar sá síðarnefndi var að harka í eyðimörkinni. Satan bauð Jesú gull og græna skóga en því fylgdi skilyrði: „Þér mun ég gefa allt þetta veldi og dýrð þess því að mér er það í hendur fengið og ég get gefið það hverjum sem ég vil. Ef þú fellur fram og tilbiður mig skal það allt verða þitt\".
Stóra fréttin í málinu er að mínu mati ekki að Bjarni Ben, Ásmundur og Jón Gunnarsson tali eins og þeir tala, háðir útgerðinni. Íslandssagan hreinlega býður þeim að tala þannig.
Stærsta fréttin er heldur ekki sú að enn skorti prinsipp í íslenska umræðu. Þar erum við bara í gömlu sínki en ögurstund nýrra og betri siða er runnin upp.
Stærsta fréttin í þessu máli öllu er að Gunnar Bragi standi enn í lappirnar. Maður veltir fyrir sér hve lengi hann geti ráfað um í eyðimörkinni með staðfestu og prinsipp í brjósti, freistingar við hvert fótmál. En gangi honum vel, því langtímahagsmunir Íslands eru undir. Vonandi lætur hann eins og hann sjái ekki Kókbílinn þótt hann birtist honum í þorstanum, bak við kaktusana. Meirihluti þjóðarinnar stendur með utanríkisráðherra á þessari göngu samkvæmt skoðanakönnunum. Gangan er ekki gengin til einskis - kannski er hún stigin til nýrrar og betri siðferðislegrar framtíðar...
(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á Hringbraut)