Orð Más Guðmundssonar Seðlabankastjóra, ekki síst í Þjóðbraut í gærkvöld, um helstu orsakir hvers hátt gengi íslensku krónunnar er, eru eftirtektarverð. Hann bendir á ferðaþjónustuna og sífelldan vöxt hennar og spyr reyndar, hvort ekki sé unnt að takmarka hversu mörg flugfélög fái að lenda á Keflavíkurflugvelli, flugvelli sem annar engann veginn því álagi sem þar er nú.
Hann sagði eigi að síður sé haldið áfram og látið sem engar afleiðingar verði af sífelldum vexti. Í ár koma meira en 1.700 þúsund ferðamenn til Íslands og á næsta ári verða þeir nærri tveimur og hálfri milljón.
Þórólfur Matthíasson, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, er á svipuðum nótum í grein sem hann skrifar í Fréttablaðið í dag. Fyrst rifjar hann upp hvernig við Íslendingar höfum áður ofgert auðlindum og dregur síðan upp ógnvekjandi mynd, en raunsæja:
„Að flugfélögin munu ofnýta ferðamannaauðlindina með sama hætti og útgerðin ofnýtti síldina og þorskinn og fjármálavíkingarnir trúgirni erlendra sparifjáreigenda. Að gengi krónunnar muni hækka uns ferðamenn finna sér aðra afþreyingu en að láta okra á sér á Íslandi. Að gengi krónunnar muni hækka uns hátæknifyrirtæki og tölvuleikjaframleiðendur flytja starfsemi úr landi. Að gengi krónunnar muni þrengja að útflutningsstarfsemi. Að gengi krónunnar verði svo hátt að útflutningsfyrirtækin pakki saman og hverfi til annarra landa eða leggi upp laupana.“
Vá, það er dökk mynd, sem prófessorinn dregur upp. Þórólfur heldur áfram:
„Sagan frá 1968 og 1982 og 2008 segir okkur að þessi dapra sviðsmynd getur orðið að raunveruleika, en hún þarf þess ekki. Ef það á að koma í veg fyrir ofris og fall krónunnar verður að hækka kostnað þeirra fyrirtækja sem stunda ferðamannarányrkju án þess að hækka um leið kostnað allra annarra fyrirtækja. Það er hægt, en ekki með því að láta gengið hækka og hækka.
Einfaldasta og nærtækasta aðferðin er að hækka komugjöld til landsins og hækka gistináttagjald og setja virðisaukaskatt á gistiþjónustu og veitingaþjónustu í hærra þrep þess skatts. Séu þessar aðgerðir útfærðar með réttum hætti ætti að vera möguleiki að reka sjálfbæra ferðaþjónustu og fjölbreytta útflutningsvöruframleiðslu hér á landi án þess að ferðaþjónustan eyðileggi rekstrargrundvöll annarra útflutningsgreina. Sé ekkert að gert er hætt við nýrri sveiflu raungengis og lífskjara.“
Það er einmitt það. Er ekki staðan sú að við slepptum byrjunarreitnum? Lögðum bara af stað, gengið var yfir allt og alla. Nú þarf að bjarga. En hver? Hér er engin ríkisstjórn og fátt að gerast. Stóra tækifærið getur greinilega orðið okkur afar dýrt, ef ekkert verður að gert.