Sagt er að sagan sé skráð af sigurvegurum hvers tíma. En sá sem á sífellt i stríði við aðra leggur sitt undir alla daga. Sigur dagsins í dag getur orðið að tapi á morgun. Einkum á það við hinn rokgjarna geira samfélagsins, pólitíkina.
Eins og prins á hvítum hest birtist ungur og ferskur Sigmundur Davíð í íslenskum stjórnmálaheimi þegar borgarar landsins voru hvað beygðastir. Hann náði fljótt völdum innan Framsóknarflokksins, sagði marga góða hluti, barðist einarðlega gegn Icesave, hampaði hinu íslenska en kveikti ótta gagnvart útlandinu. Þjóðin trúði þessum unga manni sem virtist njóta blessunar Óðins. Boð hans um kraftaverk gengu eftir skömmu eftir að hann varð forsætisráðherra. Ferðamenn fóru að þyrpast til landsins sem aldrei fyrr, dýrmæt fisktegund sigldi inn í íslenska lögsögu. Eldsneytisverð lækkaði, smjör fór að drjúpa af hverju strái.
En svo birtist yfirlýsing eiginkonu hans í fyrrakvöld. Og á sama tíma leit Óðinn af okkar manni.
Eftir yfirlýsinguna hefur hvert orð og hver athöfn forsætisráðherra aftur í tímann sætt þaulskoðun. Eitt er flutningur lögheimilis Sigmundar Davíðs á eyðibýli fyrir austan um það leyti sem hann ákvað að sækja sér hámarksfylgi hjá einum stærsta ESB-andstöðu hópi þjóðarinnar, íbúum Norðausturkjördæmis. Annað er skattabreytingar sem hann talaði fyrir sem urðu til þess að gjöld hans sjálfs til íslenska ríkisins stórlækkuðu milli ára eins og Austurfrétt skúbbaði í fyrrasumar.
Í dag eru birtar myndir af Tortóla og minna í engu á eyðibýlið fyrir austan.
Ein af spurningum dagsins er hve mörg atkvæði foringinn hefði fengið árið 2013 ef hokrandi íbúum NA-kjördæmis hefði verið ljóst að forsætisráðherrahjónin ættu gríðareignir í skattaskjóli á eyjunni sem fyrr er nefnd. Kannski var eitthvað krúttlegt í augum kjósenda Framsóknarflokksins að hann skyldi bindast böndum við austfirska eyðibýlið. En flest okkar sjá ekki margt krúttlegt við Tortóla, þótt vissulega sé þar mikil náttúrufegurð. Tortóla er tákn mismununar og ójafnaðar.
Ótalmargt annað kemur upp í hugann. Nú munu fara í hönd erfiðir dagar í hönd hjá hinum unga forsætisráðherra íslensku þjóðarinnar Kannski væri bara best að segja þetta gott til að sefa reiða þjóð. Það verður ekkert grín að vinna aftur upp þann trúverðugleika sem tapast hefur. Á það hefur Jón Ólafsson siðfræðingur bent.
Í pólitík verða orð og athafnir að fara saman. Þannig er það nú bara...