Ingólfur Geir Gissurarson fjallgöngumaður sem síðastur Íslendinga náði á topp Everest segist hafa verið hálft ár að jafna sig eftir að hafa klifið hæsta fjall jarðar. Hann hafi ekki gætt sín á að borða nógu próteinríkan mat fyrir gönguna sem fyrir vikið hafi leitt til þess að gengið hafi mjg á vöðvamassa líkamans. Það hafi í raun ekki verjð fyrr en börn hans heima á Íslandi, nokkrum vikum eftir að hann kom heim, bentu honum á að hvað hann væri orðinn vöðvarýr að hann hafi gert sér grein fyrir hvernig komið hefði verið fyrir honum. Það sé nefnilega ekki nóg að borða mikið af kolvetnaríkum mat fyrir erfiðustu fjallgöngurnar sem menn takast á við í lífinu, heldur þurfi að huga líka vel að próteinum sem viðhaldi best af öllu vöðvakerfi líkamans.
Ingólfur Geir, sem er fimmti Íslendingurinn sem kemst á topp á Everest, lýsti því nákvæmlega í viðtalinu á Hringbraut í gærkvöld hvernig hann hagaði göngu sinni á 8848 metra hátt fjallið í Himilaya-fjallgarðinum. Eitt af því erfiðasta við ferðina sé að viðhalda matarlystinni og í reynd að pína ofan í sig fæðu eftir því sem ofar dragi, en hitt sé líka eftirminnilegt; að takast á við hrikaleika fjallsins; mörghundruð metra háar ísblokkir sem farið hafi verið yfir á þröngum álstigum - og blessunarlega yfir nótt, því ella hefði dagsbirtan opnað augu manna fyrir því hyldýpi sem biði fyrir neðan. Félagi hans hefði komist svo að orði að ganga yfir þennan kafla leiðarinnar væri ekki fyrir hugsandi menn.
Sjá má allt viðtalið í þættinum Lífsstíl hér: