\"Ég er mjög langt leiddur matarfíkill,\" sagði Esther Helga Guðmundsdóttir ráðgjafi í heilsu- og útivistarþættinum Lífsstíl sem var á dagskrá sjónvarpsstöðvarinnar Hringbrautar í g´rkvöld. en þá hófst haustdagskrá stöðvarinnar með mörgum gömlum kunningjum og fjölda nýrra þátta.
Í einkar áhugaverðu samtali sínu við Sigmund Ernir, sem hægt er að nálgast á hringbraut.is segir Esther hvernig hún tókst á við mikla matarfíkn sína fyrir hálfum öðrum áratug, en þá var hún nærfellt 130 kíló að þyngd og réð engan veginn við hömlulausa fíkn sína í mat. Hún reyndi allar leiðir, alla kúra og allar fæðutegundir en árangurinn fór ekki að láta á sér bera fyrr en hún tók út allan sykur og svo að segja alla sterkju sem finnst í kornmeti. Og þá hrundu kílóin af henni, en hún er í dag rétt um 65 kíló, búin að missa 60 kíló - og með því að vigta allan mat ofan í sig, hugsa í sífellu um skammtana, hefur henni tekist að halda kjörþyngd sinni.
Hún lýsir því í þættinum hversu áþekk matarfíkn er áfengis- og eiturlyfjafíkn en í báðum tilvikum geti verið um genatískan sjúkdóm að ræða. Og vel að merkja, sykur getur verið langtum meira ávanabindandi en kókaín og heróin, segir hún og nefnir þar til sögunnar ein hörðustu fíkniefnin á markaðnum.
Esther er dáleiðslutæknir að auki og hefur notað dáleiðslu mikið til að hjálpa fólki að ráða við matarfíkn sína, oft með mjög góðum árangri eins og hún lýsir í seinnihluta þáttarins í kvöld sem hægt er sem fyrr segir að nálgast í heild sinni eða í klippum á hringbraut.is.