Erum við öll asnar?

Þeir sem halda úti fréttavefnum akureyri.net hafa tekið saman vinsælustu fréttir ársins 2015.

Þar er hið svokallaða Grímseyjarmál efst á dagskrá, dagarnir sem að öll þjóðin ræddi viðtal sem ung hetja veitti blaðamanni og sagðist hafa verið misnotuð kynferðislega árum saman af valdamanni í eynni.

Hetjur síðasta árs voru konur sem stigu fram. Í því fólst sigur réttlætis og vakningar þótt ekki næðust sigrar alltaf fyrir dómstólum.

Mest lesni leiðari ársins 2015 á ennþá ágætlega við að mínu mati, en hann birtist í mars árið 2015. Hann fjallaði um slitabréf utanríkisráðherra undir fyrirsögninni: 

ERUM VIÐ ÖLL ASNAR?

Þar segir m.a. þetta og á kannski enn við, en leiðarinn birtist í mars eftir að fjöldi manns mótmæltu ESB-slitabréfi ráðherra án árangurs:

\"Það er ömurlegt að verða vitni að eins augljósu vanhæfi og eins mikilli sérhagsmunahyggju og birtist í hroka utanríkisráðherra sem vart verður skýrður með öðru en fáfræði. Heilbrigðri skynsemi blæðir. Réttlætiskenndin blossar upp. Þess vegna mótmæltu 8.000 manns á Austurvelli sl. sunnudag. Hægri menn ekki síður en vinstri menn. Þar voru bæði sjálfstæðismenn og framsóknarmenn af því að burtséð frá flokkslínum þá átta æ fleiri hugsandi borgarar sig á að upp er runnin ögurstund.

Hinn kosturinn væri að gangast við því að við séum öll asnar. Asnar sem láta traðka endalaust á sér? Ætlum við endalaust að vera í þolendahlutverkinu eða ætlar þjóðin að bregðast við skemmdarverki Gunnars Braga?\"

Batnandi mönnum er best að þrífast - en lifi gagrýnin skoðanaskrif.

(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)