Erum á svipuðum stað og brexit var fyrir nokkrum árum

Orkupakkaumræðan hefur fært umræðuna um aðild Íslands að innri markaði Evrópusambandsins á svipaðan stað og Brexitumræðan í Bretlandi var fyrir nokkrum árum.

Sömu prinsippin

Þetta eru hliðstæð mál. Innri markaðurinn og Schengensamstarfið eru kjarninn í Evrópusambandinu. Grundvallarspurningar um framsal valdheimilda og fullveldi eru nákvæmlega þær sömu hvort heldur ríki eru með fulla aðild eða takmarkaða við kjarnann.

Munurinn er helst sá að meira valdframsal felst í takmörkuðu aðildinni því að henni fylgir ekki réttur til þess að taka þátt í ákvörðunum. Af þeim sökum hafna Brexitsinnar slíkri lausn.

Í þessu ljósi er fróðlegt að bera umræðuna hér saman við þróun umræðunnar í Bretlandi.

Brexitumræðan byrjaði sem nart út í Evrópusambandið

Brexitumræðan í Bretlandi hófst ekki með tillögu um úrsögn. Í fyrstu var hún mest bundinn við þröngan hóp yst til hægri í Íhaldsflokknum. Tal manna þar byrjaði sem nart út í Evrópusambandið. Smám saman þyngdist sú umræða. En menn töluðu þó alltaf um efasemdarmenn en ekki andstæðinga.

Gagnrýni á sameiginlegar leikreglur á þessum stóra heimamarkaði varð brátt að fullyrðingum um að Bretland hefði fórnað yfirráðum eigin mála. Og hægt og bítandi fóru menn að tala um tvíhliðasamninga.

Þau sjónarmið heyrðust jafnvel í alvöru að Bretland hefði fórnað fullveldinu með aðildinni að mannréttindadómstól Evrópu.

Til þess að halda Íhaldsflokknum saman fóru stuðningsmenn aðildar ekki í markvissa málsvörn og því síður átök vegna þessarar umræðu. Flestir litu á hana sem jaðarvanda. Síðan kom að því að breska Sjálfstæðisflokknum óx fiskur um hrygg. Og hann fór að draga til sín kjósendur af ysta hægri armi Íhaldsflokksins.

Eftir það misstu stuðningsmenn aðildar vald á umræðunni og töpuðu  loks þjóðaratkvæðinu.

Rökin yst frá hægri í breska Íhaldsflokknum endurómuðu hér

Síðastliðna tvo áratugi hefur uppistaðan og ívafið í málflutningi Sjálfstæðisflokksins um utanríkismál verið nart út í Evrópusambandið. Í reynd var það að mestu endurómur frá orðræðu þeirra sem lengst voru til hægri í breska Íhaldsflokknum. Og bergmálið frá boðskap þeirra um tvíhliða samninga hefur einnig hækkað hér jafnt og þétt.

Hér eins og í Bretlandi hefur líka verið talað um efasemdir en ekki andstöðu.

Þessi málflutningur hefur grafið undan röksemdum fyrir aðild að innri markaðnum rétt eins og fullri aðild í Bretlandi.

Afleiðingarnar komu loks fram í því að flokkurinn hafði ekki vald á orkupakkaumræðunni. Ef ekki hefði komið til þungt aðhald frá Viðreisn og Samfylkingu er óvíst að tekist hefði að sameina þingflokk sjálfstæðismanna.

Eftir afsögn dómsmálaráðherra fyrr á árinu mátti jafnvel heyra sams konar sjónarmið innan úr Sjálfstæðisflokknum  gagnvart Mannréttindadómstólnum og stundum hafa heyrst í öfga hægri armi Íhaldsflokksins.

Miðflokkurinn hefur svipuð áhrif og breski Sjálfstæðisflokkurinn og Brexitflokkurinn

Forysta Sjálfstæðisflokksins hefur forðast málsvörn fyrir aðildina að innri markaðnum alveg eins og forysta Íhaldsflokksins í  Bretlandi. Miðflokkurinn virðist svo vera að hafa svipuð áhrif á Sjálfstæðisflokkinn og breski Sjálfstæðisflokkurinn og síðar Brexitflokkurinn höfðu á Íhaldsflokkinn.

Helsti munurinn á framvindu umræðunnar hér og í Bretlandi er orkupakkinn. Hann er viðvörun sem Bretar fengu ekki. Spurningin er: Viljum við taka það hættumerki alvarlega?  Það stendur næst  Viðreisn og Samfylkingu að svara en ekki síður samtökum í atvinnulífi og á vinnumarkaði.