Gangi Karl Gauti og Ólafur Ísleifsson í Miðflokkinn eins og flest bendir til þá væri komin upp sú áleitna staða að setja Vinstri græna út úr stjórninni og taka Miðflokkinn inn í staðinn. Með því hefði stjórnin 33 þingmenn á bak við sig. Núna hefur hún einnig 33 örugga þingmenn. Auk þess styðja tveir þingmenn VG stjórnina stundum, þau Rósa og Andrés.
Sjálfstæðisflokkur hefur 16 þingmenn, Framsókn 8 og Miðflokkur hefði 9 þingmenn ef þeir Karl og Ólafur bætast við. Samtals 33 þingmenn.
Hvers vegna skyldu Sjálfstæðismenn og Framsókn vilja gera þessar breytingar?
Fyrir því eru gildar ástæður.
Það er Sjálfstæðisflokknum sérstaklega þungbært að styðja sósíalista í embætti forsætisráðherra í fyrsta skipti í sögunni. Ekki er flokknum auðveldara að styðja Steingrím J. Sigfússon í embætti forseta Alþingis, manninn sem kom formanni Sjálfstæðisflokksins á gálgann í Landsdómi. Mörgum flokksmönnum svíður þetta ástand sárt.
Ef Vinstri grænum yrði ýtt út úr ríkisstjórn tæki Bjarni Benediktsson við embætti forsætisráðherra. Það ætti að hugnast bæði honum og flokksmönnum vel enda er flokkurinn með langflesta þingmenn á bak við sig.
En hvers vegna ætti Framsókn að vilja gera þessa breytingu og hleypa Miðflokknum inn í ríkisstjórnina? Svarið við þeirri spurningu ætti að vera nokkuð augljóst. Á meðan systurflokkarnir Framsókn og Miðflokkurinn eru ekki saman í stjórn eða saman í stjórnarandstöðu nást ekki sættir til að sameina flokkana að nýju. Dygga flokksmenn beggja flokka dreymir um sættir og sameiningu að nýju. Það er alveg hægt því stefnumálin eru hin sömu. Formenn flokkanna þurfa einfaldlega að grafa axirnar og sættast.
Svona gæti ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Miðflokks litið út:
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson fjármálaráðherra, Þórdís Gylfadóttir ferðamála-og iðnaðarráðherra, Kristján Júlíusson eða Jón Gunnarsson sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra, Sigríður Andersen forseti Alþingis, Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra, Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson utanríkisráðherra, Karl Gauti Hjartarson dómsmálaráðherra, Þorsteinn Sæmundsson heilbrigðisráðherra og Birgir Þórarinsson umhverfisráðherra.
Djörf hugmynd - eða hvað?
Stefnumálin ættu ekki að tefja fyrir enda eru þessir þrír flokkar með nær sömu stefnu í flestum meginmálaflokkum.