Eru þingmenn dómarar í eigin sök?

Í bókinni um veggjakrot er margt skemmtilegt og forvitnilegt. Á einum stað er sagt frá veggskilti þar sem stóð: „Jesús er svarið.“ Einhver hafði bætt við: „En hver var aftur spurningin.“ „Við höfum staðist prófið,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, þegar hann sleit þinginu í gær. Hann átti þar við sig og aðra þingmenn. En hvert var prófið og hver samdi það?

Voru það ekki kjósendur? Jú. Þeir vildu til dæmis að tekið yrði til við að laga það sem hefur verið frestað, svo sem í heilbrigðismálum, menntamálum og fleiru. Stóðst þingið það próf?

Nær helmingur þingmanna tók sæti á þingi í fyrsta sinn að þessu sinni. Annar blær virtist á þinginu nú. Ferskari en áður.

Fyrir um aldarfjórðungi var ég þingfréttamaður og sat oft í stúkunni og fylgdist með atkvæðagreiðslum þingmanna. Þá sá ég fyrir mér að einn fulltrúi hvers þingflokks gæti allt eins setið í þinginu og lyft upp spjaldi með tölu sem stefndi við fjölda þingmanna viðkomandi flokks. Þar sem til algjörra undantekninga taldist ef allir þingmenn flokka höguðu sér ekki eins í hvert sinn.

Nú brá svo við að aldrei hafði orðið meiri endurnýjun á þingi. Það virtist vera annar blær á þinginu. Fyrirheit um önnur viðhorf þingmanna. Að auki er engin raunveruleg ríkisstjórn. Frelsi þingmanna var sagt meira en nokkru sinni.

Svo voru greidd atkvæði. Þá var allt eins og 1991 og bæði fyrir og eftir það ár. Fulltrúar þingflokkanna hefðu allt eins getað lyft skiltum með tölu þingmanna sinna flokka. „Ný jakkaföt, sama röddin,“ á Bó að hafa sagt við Herbert þegar sá síðarnefndi mætti í nýjum jakkafötum. Nú má segja; nýtt þing, sama system.

En hvers vegna? Meðal annars vegna þess að þeir flokkar sem ekki tilheyra, eða réttara sagt ekki tilheyrðu starfsstjórninni, breyttu þannig. Þegar þeir, á vegferðinni eftir kosningar, komu á hringtorgið, beygðu bæði Viðreisn og Björt framtíð út af í fyrstu beygju, tóku fyrstu hægri beygju. Þar fundu þeir fyrir Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk. Vinstri græn eru söm við sig. Samfylking og Píratar fara trúlega nokkra hringi áður en þeir flokkar ákveða sig hvert þeirra munu stefna.

Niðurstaðan er sú gömlu valdadflokkarnir hafa fengið aukin kraft með öflugum stuðningi þeirra sem sveigðu strax til hægri.

 „Við höfum staðist prófið,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, þegar hann sleit þinginu í gær. Er það rétt? Og hvaða próf stóðst þingið? Nær allir þingmennirnir, til dæmis, ákváðu að taka orð og fullyrðingar Ásmundar Friðrikssonar framyfir orð Tómasar Guðbjartssonar og Páls Matthíassonar.  Það gerðu þingmennirnir með því að segja já, eða þá með þögninni þegar fjárlög næsta árs voru samþykkt. Þögn er jú sama og samþykki.

E alveg víst að þingmennirnir sjálfir og forseti þeirra séu prófdómarar á eigin frammistöðu? Það held ég ekki.