Eru óheilindi framsóknar að fleyta þeim á toppinn?

Framsókn lék tveimur skjöldum og meinti ekkert með þátttöku í sýndarviðræðum þeirra við Samfylkingu, VG og Pírata. Þremur dögum var eytt í innantómt hjal þar til Framsókn þóttist allt í einu átta sig á því að flokkarnir höfðu einungis eins manns meirihluta.
 
Allir hljóta að sjá í gegnum ómerkilegheit Framsóknar. Gæti komið þeim í koll síðar þó fléttan kunni að greiða fyrir bandalagi þeirra við Sjálfstæðisflokkinn núna.
 
Margt bendir til þess að nú verði reynt að mynda ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, VG og Framsóknar undir forsæti Sigurðar Inga.
Það yrði að sönnu þvingað og ástlaust hjónaband af skiljanlegum ástæðum:
 
Stór hluti Vinstri grænna fyrirlítur Sjálfstæðisflokkinn og fjármálasukk formannsins.
 
Stór hluti Sjálfstæðisflokksins fyrirlítur Vinstri græna, einkum Steingrím J. og Svandísi, sem skipulögðu Landsdómsmálið gegn Geir Haarde sem var einkar lúalegt.
 
Margir Sjálfstæðismenn geta heldur ekki fyrirgefið Sigurði Inga framgöngu hans í Landsdómsmálinu en hann leiddi aðförina að Geir Haarde fyrir hönd Framsóknar.
 
Sigurður Ingi hefur verið sár út í Sjálfstæðisflokkinn fyrir að hafa ekki leyft flokknum að vera með í fráfarandi ríkisstjórn.
 
Samt verður þessu öllu vikið til hliðar því neyðin kennir nakinni konu að spinna.
Formenn allra þessara flokka VERÐA að komast í ríkisstjórn núna. Annars missa þeir tökin á flokkum sínum. Þetta á sérstaklega við um Bjarna Benediktsson sem mun fórna öllu fyrir ráðherrastóla.
 
Komist þessi stjórn á, munu margháttuð vandamál rísa. Ekki síst í Sjálfstæðisflokknum. Dæmi:
 
Ráðherrar eru ellefu. Forseti Alþingis er svo tólfta virðingarstaðan. Í þriggja flokka stjórn koma væntanlega fjórir stólar í hlut hvers flokks. Verði Sigurður Ingi forsætisráðherra og Steingrímur J. forseti Alþingis, þá hlýtur Bjarni Benediktsson að gerast fjármálaráðherra að nýju. Svo fengi hver flokkur þrjá ráðherra til viðbótar.
 
Frá Sjálfstæðisflokki hlytu þá að koma Guðlaugur Þór, Þórdís Kolbrún og Sigríður Andersen. Þá misstu Kristján Þór Júlíusson og Jón Gunnarsson ráðherrastóla sína og Suðurkjördæmi fengi ekki ráðherra. Varla yrði Páll Magnússon kátur með það!
 
Nærri má geta að stemmningin í valdaflokknum verður örugglega í lægri kantinum þegar menn þurfa að horfast í augu við þetta.
 
Rtá.