Það er kannski lítil spurn eftir frekari pistlum eða greiningum um ákvörðun forseta Íslands í gær. En samt er hún svo risastór og gæti breytt svo miklu fyrir íslenskt samfélag að það mætti telja það ábyrgðarleysi að leggja ekki í púkkið.
Ólafur Ragnar Grímsson notaði eftirfarandi sem rök fyrir þeirri ákvörðun að rjúfa það loforð sem hann hafði gefið þjóðinni, í annað skipti á ferlinum í gær:
\"Fólkið í landinu sér sig tilknúið að rísa upp hvað eftir annað og fjölmenna á Austurvöll, dag eftir dag. Hér fyrr á árum liðu oft mörg ár, jafnvel áratugir milli þess sem fólk fór á Austurvöll til þess að mótmæla. Og það er í þessu ástandi sem gerð er krafa um það að ég víki ekki af velli, að ég standi þessa vakt áfram. Það er kjarninn í minni afstöðu.\"
Kæri Ólafur. Hverjum hentar það best ef fólk hættir að mótmæla? Ráðandi stjórnvöldum, ekki satt? Þeim hinu sömu og 22.000 manns gáfu rauða spjaldið fyrir skemmstu.
Ertu að snúa friðsamlegum mótmælum almennings upp í neikvætt og ógnandi fyrirbrigði sem kallar á að hinn sterki leiðtogi, öryggisventillinn uppmálaður, sitji endalaust á Bessastöðum og sjái um að aldrei verði lýðræðisumbætur eða að engar meiriháttar breytingar geti orðið?
Þú sjálfur, fv. prófessor í stjórnmálum, ættir manna best að vita að eitt af því sem er gagnrýnt hvað harðast í Rannsóknarskýrslu Alþingis er andvaraleysið þegar spilling viðskipta og stjórnmála var nálægt því að drekkja þjóðinni án þess að nokkur mætti á Austurvöll. Við einmitt létum með þögninni og fálætinu ýmsan óhroða viðgangast í stað þess að mótmæla friðsamlega.
Ólafur Ragnar, friðsamleg mótmæli eru til merkis um heilbrigt samfélag. Þegar eitthvað bjátar á hjá stjórnvöldum hefur almenningur nú rænu á að reyna að bjarga Íslandi með því að aðhafast. Þú átt ekki að vera maðurinn sem kæfir þær raddir niður eða talar eins og af stafi ógn. Þú ættir að vera forsetinn sem fagnar því að ljúka vaktinni þegar fólkið í landinu er raunverulega vaknað eins og þú óskaðir eftir í fyrri hátíðarræðum. Fólkið hefur í krafti réttlætisbaráttu sinnar náð að fella spilltan þjóðhöfðingja af stalli og uppsker kosningar einu þingi fyrr en til stóð.
Sem lýðræðisunnandi og gamall prófessor í stjórnmálafæði ættir þú að vita þetta, Ólafur. Og kannski er það einmitt vegna þessarar rökvillu sem Þorsteinn Pálsson segir að málflutningur þinn sé barnalegur og haldi ekki vatni. Hangir þó kannski saman við 20 ára samfellda valdatíð þína og það sem kallað hefur verið messíasarkomplex þeirra sem fara lengst með vald. Vald spillir, algjört vald gerspillir, sagði Aston lávarður.
Í þínu tilviki kýs ég þó fremur að orða þetta með valdið kurteislegar um leið og ég þakka fyrir þjónustu þína á umliðnum árum. Ég ætla að láta duga að spyrja hvort aldur þinn og samfelldur valdatími hafi e.t.v. orðið til þess að slá þig pólitískri blindu gagnvart lýðræðishagsmunum þinnar eigin þjóðar? Hagsmunum þess almennings sem kausa þig til valda á sínum tíma. Nú er ný stjórnarskrá hvað háværasta krafan. Og gildir einu hvaða skoðun þú hefur á henni. Meirihluti þjóðarinnar hefur sammælst um nýja stjórnarskrá. Restin er útfærsluatriði. Þú munt ekki geta staðið í vegi fyrir umbótunum þótt þú reynir að tefja þær, lýðræðið mun finna sér farveg, burtséð frá því hvar þú átt lögheimili.
Björn Þorláksson