Það er að koma æ betur í ljós að útspil Pírata 12 dögum fyrir kosningar hefur fært ríkissjórnarflokkunum vopn í hendur. Allar skoðanakannanir sýndu stjórnina kolfallna með samtals um 30% fylgi. Eftir að Píratar buðu til stjórnarmyndunarviðræðna fyrir kosningar þar sem VG, Samfylking og Björt framtíð þáðu boð um slíkar viðræður, hefur stjórnarflokkunum reynst auðvelt að magna upp ótta meðal fólks um að mynduð verði vinstri stjórn sem hækkaði skatta, ógnaði stöðugleika og yrði óábyrg í fjármálum eins og reynslan af samstarfi þeirra í Reykjavíkurborg sýnir.
Vinstri stjórnar grýlan leikur nú lausum hala. Áratugagömul slagorð Sjálfstæðisflokksins eru nú notuð óspart: “Varist vinstri slysin!” Ekki að annað að heyra en að þetta fari vel í kjósendur. Náttfari heyrir úr herbúðum bæði Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins að þar gæti aukinnar bjartsýni um að kjósendur séu nú að flýja frá þessum fjórum vinstri flokkum yfir til stjórnarflokkanna. Sumir eru orðnir svo bjartsýnir fyrir hönd flokka sinna að þeir telja að ríkisstjórnin muni halda velli – í boði Pírata, þökk sé vanhugsuðu útspili þeirra.
Báðir stjórnarflokkarnir standa fyrir miklum úthringingum þessa dagana þar sem varað er við hættunni af vinstri stjórn VG og Pírata. Náttfari heyrði í manni sem fékk símtal frá flokksskrifstofu annars þeirra sem gekk út á hræðsluáróður vegna vinstri stjórnar. Hann sýndi erindinu lítinn áhuga en fékk þá svona gusu:
“Er þér bara alveg sama? Vilt þú fá Steingrím J. aftur í fjármálaráðuneytið, langar þig að sjá Smára McCarty sem utanríkisráðherra, Svandísi sem menntamálaráðherra (og þar með yfirmann RÚV) og svo Birgittu Jónsdóttur í innanríkisráðuneytinu þar sem hún yrði yfir lögreglunni……………?”
Lengra varð símtalið ekki því maðurinn nennti ekki að hlusta lengur. Hann lagði á.
Engu að síður er þetta raunhæft og þarft umhugsunarefni því á bak við alla flokka er flokksforysta sem gæti tekið sæti í ríkisstjórn. Allt þetta fólk sem nefnt var í hræðslusímtalinu gæti vel komið til greina.
Vinni stjórnarflokkarnir varnarsigur í kosningunum á laugardaginn, sem margt bendir til, þá geta þeir þakkað það mistökum Pírata sem verða að skirfast á reynsluleysi þeirra og tilfinnanlegan skort á raunveruleikatengslum. Þá geta þeir einnig þakkað forystumönnum VG, BF og Samfylkingar fyrir þá glópsku að ganga til þessara fyrirfram vonlausu viðræðna.