Eru bara kjánar að skrifa viðskiptafréttir?

   Ærið tilefni er til að spyrja svona. Fréttir af hlutabréfaverði Haga eru einar og sér nægt tilefni, en auðvitað má bæta við jafn kjánalegum fréttum af hlutabréfaverði Icelandair fyrr á árinu.

   Það eru sérstaklega ályktanir fjölmiðlamanna um áhrif verðþróunar hlutabréfanna á lífeyrissjóði landsmanna sem vekja furðu. Hér eru tvö tæmi um fréttir af Högum.

     Í frétt RÚV þann 8.8. segir: „Eign lífeyrissjóða í Högum hefur rýrnað um tæpa tólf milljarða í sumar. Gengi bréfa í Högum lækkaði um rúm sjö prósent í dag og hefur lækkað um þriðjung síðan Costco opnaði í maí. Markaðsvirði fyrirtækisins hefur þar með lækkað um tæpa 22 milljarða. Lífeyrissjóðir eiga meira en helming í Högum.“

   Á vef Viðskiptablaðsins sama dag er þetta: „Heildarmarkaðsverðmæti félagsins stendur því í rétt rúmlega 42 milljörðum króna og hefur rúmlega 21,5 milljarður þurrkast út af markaðsverðmæti félagsins á tímabilinu. Það er því auðvelt að átta sig á því að Gildi-lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins. A-deild og Lífeyrissjóður Verslunarmanna sem er þrír stærstu hluthafar Haga, hafa tapað milljörðum króna frá opnun Costco.“

    Maður gæti haldið að þessir lífeyrissjóðir hafi þurft að horfa á eftir stórum fjárhæðum vegna verðlækkunar hlutabréfanna. Jafnvel hafa verið getgátur um að þeir þurfi að lækka lífeyri sjóðfélaga. 

   Hvers vegna skoða blaða- og fréttamenn málið ekki betur? T.d. á hvað keyptu sjóðirnir hlutabréfin? Staðreyndin er nefnilega að þrátt fyrir lækkanir undanfarið er verð þeirra enn talsvert hærra en sjóðirninr keyptu þau á. Þeir hafa því engu tapað, þvert á móti eru þeir í gróða miðað við að selja á gengi dagsins. Þar að auki hafa þeir á hverju ári fengið greiddan arð af hlutabréfunum sem eykur enn meira við gróðann af fjárfestingunni. 

    Kannski er til of mikils mælst að þessir fjölmiðlamenn skoði málin í víðara samhengi og skoði fleiri fjárfestingar sjóðanna, líti t.d. á þróun hlutabréfaverðs í Marel, þar sem lífeyrissjóðirnir eiga um 40%. Gengi þeirra bréfa hefur nefnilega hækkað um 50% á sama tíma. Sú hækkun ein og sér nemur um 40 milljörðum og gerir því meira en að vega upp lækkun í Högum og Icelandair samanlagt, hvað lífeyrissjóðina varðar. Það er því ótímabært að hafa áhyggjur af að sjóðirnir þurfi að lækka lífeyri.

   Eftir situr spurningin: Hvers vegna er fjölmiðlunum svo mikið í mun að halda villandi fullyrðingum, jafnvel hreinum rangfærslum, að almenningi?

 

rtá