Ertu búin/n að laga til í kryddskápnum þínum nýlega?

Staðreyndin er sú að krydd er mjög misjafnt, það fer meðal annars eftir því hvar það er ræktað og hvernig þurrkað krydd er blandað.  Sumar ferskar kryddjurtir eru efnaauðugar, eins og graslaukur, steinselja svo dæmi séu tekin. Þær hafa mikið af A- og C- fjörvum og einnig járn ríkar. Þær er auðvelt að rækta, þurrka og frysta en geymslutíminn er líka mikilvægur. Kryddskápar og skúffur eru þær hirslur sem gjarnan verða eftir þegar farið er í tiltekt í eldhúsinu en það er ekki síður mikilvægt að yfirfara kryddin og taka stöðuna á dagsetningunum hvenær þau renna út.

Krydd og þurrkaðar kryddjurtir verður að geyma á dimmum, þurrum og köldum stað. Allt krydd á að geyma í glerílátum með þéttum lokum. Það er ekki æskilegt að geyma krydd í plastílátum, sumar tegundir tæra plastið og kryddið dofnar frekar. Ef krydd eru keypt í plastpokum eða bréfum er brýnt að losa það í litlar glerkrukkur eða glös til geymslu. Jafnframt að merkja glerkrukkurnar og hvenær kryddið var losað í ílátin til að fylgjast með geymslutímanum.

Bragð kryddsins dofnar með tímanum því það er bundið rokgjörnum olíum og því er mikilvægt að fylgjast með aldri kryddana og geymslutíma. Geymslutími krydds fer eftir í hvaða formi kryddið er.

Hér má sjá geymslutíma krydds:

-       Heilt krydd/heil korn 4-5 ár

-       Mulið krydd 2 ár

-       Kryddjurtir 1 ár 

Munið því að fara reglulega yfir kryddskápana ykkar og skúffur og aðgætið allar dagsetningar og endurnýið kryddin eftir þörfum. Krydd er yfirleitt dýr og því er best að kaupa lítið í einu og aðeins ný og góð krydd.