Er von á skriðu af nýjum sendiherrum?

Óvenjumargir fyrrverandi stjórnmálamenn standa nú uppi atvinnulausir eftir að hafa fallið út af þingi. Sumir þeirra tóku sjálfir ákvarðanir um að láta staðar numið í stjórnmálum, aðrir töpuðu í prófkjörum og enn aðrir féllu í sjálfum kosningunum.

Fjórflokkurinn hefur í áratugi haft í gildi óformlegt heiðursmannasamkomulag um að fyrrverandi formenn flokkanna geti gengið að sendiherraembættum vísum, kjósi þeir það þegar þingmannsferli lýkur. Þetta samkomulag gildir einungis um fyrrverandi formenn. Aðrir stjórnmálamenn sem sækjast eftir sendiherrastöðum þurfa að hafa mun meira fyrir að fá þannig embætti. Margir reyna en án árangurs.

Mörg dæmi eru um að fyrrverandi formenn hafi orðið sendiherrar. Nýjasta dæmið um það er Geir H. Haarde sem skipaður var sendiherra Íslands í Washington fyrir tveimur árum. Rétt er að taka fram að allir þessir fyrrverandi formenn hafa staðið sig með ágætum í sendiherraembættum sínum.

Í anda þessa samkomulags gætum við séð Össur Skarphéðinsson og Árna Pál Árnason hverfa til sendiherrastarfa á næstunni. Náttfari trúir því að þeir myndu báðir sóma sér vel sem sendiherrar Íslands í einhverjum af stórborgum heimsins.

Því hefur verið hvíslað að nokkrir aðrir þingmenn sem hverfa nú af þeim vettvangi hafi þreifað fyrir sér um að fá sendiherraembætti en verið hafnað því samkomulag fjórflokksins gildir einungis um fyrrverandi formenn. Hönnu Birnu, Illuga Gunnarssyni, Ragnheiði Elínu og Vigdísi Hauksdóttur hefur verið hafnað og þurfa því að bjarga sér sjálf í atvinnuleit sinni. Þó er talið að Sjálfstæðisflokkurinn ætli “að finna eitthvað” , eins og það var orðað, fyrir Illuga enda er staða hans á vinnumarkaði afar veik eftir vandræðalega gerninga í ráðherratíð hans.

Auk þeirra sem hér hafa verið nefndir, eru margir aðrir fyrrverandi þingmenn og ráðherrar á laus. Flestir þeirra trúlega á fullu að leita sér að starfi. 

Væntanlega er mun meira framboð af föllnum stjórnmálamönnum en eftirspurn eftir þeim.