Mjög einkennileg umræða hefur skapast í kjölfar viðtals við Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra í síðustu viku. Þar sagði hann að Íslandi væri að miklu leyti stjórnað af hagsmunahópum. Í kjölfarið hafa ýmsir reynt að túlka þessa yfirlýsingu þannig að bankastjórinn hafi einungis átt við þá talsmenn atvinnulífsins eða atvinnufyrirtækja sem berjast fyrir tilteknum hagsmunum eins og á svið fiskveiðistjórnunar eða raforkuframleiðslu.
Hér er greinilega misskilningur á ferðinni. Ásgeir hefði þurft að tala skýrar um það hverjir væru þessir hagsmunahópar til að skilja ekki sviðið eftir opið fyrir frjálsa túlkun orða hans eins og reyndin hefur orðið. Það var til dæmis með ólíkindum að ríkisútvarpið skyldi leggja Kastljós í gærkveldi undir samtal við Gylfa Magnússon, formann bankaráðs Seðlabanka Íslands, þar sem hann ræddi meðal annars um viðtalið við Ásgeir og reyndi að túlka það þannig að hann hefði einungis átt við hagsmunabaráttu atvinnulífs og atvinnurekenda. Hann minntist ekki einu orði á verkalýðshreyfinguna, sem er stærsti og harðsnúnasti hagsmunahópur þjóðarinnar. Seðlabankinn hefur einmitt átt í útistöðum við verkalýðsleiðtoga sem hefur orðið uppvís að skuggastjórnun þegar hann gaf stjórnarmönnum í lífeyrissjóði fyrirmæli um fjárfestingar - eða öllu heldur að sneiða hjá fjárfestingum sem þeir hlýddu enda var þeim hótað brottrekstri ella.
Fjármálaeftirlitið, sem heyrir nú undir Seðlabanka Íslands, þurfti að hafa afskipti af þeirri framkomu og kemur á óvart að eftirlitið hafi ekki beitt heimildum sínum til afskipta meir en raun ber vitni. Það er einnig merkilegt að Gylfi skyldi hafa verið kallaður til álitsgjafar en afstaða hans hefur komið skýrt fram í blaðaviðtölum en hann lagði sitt af mörkum til að skemma fyrir hlutafjárútboði Icelandair síðastliðið haust þegar hann varaði fjárfesta við að taka þátt í útboðinu. Margir eru hneykslaðir á manni í hans stöðu að leyfa sér slíkt sem formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands og prófessor í ríkisháskóla. Hlutafjárútboð Icelandair heppnaðist fullkomlega þó svo Gylfi og Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR hafi gert sitt til að skemma fyrir. Frá því útboðinu lauk hefur gengi hlutabréfa félagsins hækkað um meira en 60 prósent. Út frá hagsmunum fjárfesta hafa ráð þeirra Gylfa og Ragnars Þórs skaðað mikið, að ekki sé nú talað um þjóðarhag.
Verkalýðshreyfingin er öflugasti hagsmunahópur þjóðarinnar. Hún setur fram kröfur og fylgir þeim eftir með því að hóta verkfallsvopninu þar sem það bítur. Verkföll hafa lokað landamærum, höfnum hefur verið lokað með þeim afleiðingum að útflutningsvörur komast ekki úr landi svo dæmi séu tekin. Ekki verður litið fram hjá því að verkalýðshreyfingin er einn stærsti og harðsnúnasti hagsmunahópur þjóðarinnar.
Vitanlega eru samtök atvinnurekenda einnig öflugur hagsmunahópur sem tekst á við löggjafann um mikilvæg mál eins og skatta, tolla, fiskveiðistjórnunarkerfið, náttúruvernd, heimildir til orkuöflunar og fjölda annarra mála.
Ekki verður annað sagt en að sveitarfélög landsins séu harður hagsmunahópur sem stendur í stöðugum átökum við ríkisvaldið um fjármuni til framkvæmda eða rekstrar á helstu opinberum kerfum.
Náttúruverndarsamtök eru einnig öflugur hagsmunahópur sem gerir stöðugt kröfur um meiri vernd og minni röskun í náttúru landsins.
Þá vantar ekki að fjöldi samtaka sem vinna að menningu, listum, íþróttum og mannúðarmálum gera stöðugar kröfur á hendur stjórnvöldum og löggjafans um fjárveitingar. Þessir aðilar berjast um fjármuni hins opinbera og skattpeninga landsmanna ekki síður en aðrir. Ekki er með neinum hætti unnt að setja þá baráttu í neikvætt ljós. Þessir aðilar hafa það markmið að efla sína starfsemi eins og reyndar hinir sem hér hafa verið nefndir.
Stjórnmálaflokkar landsins eru meira að segja hagsmunahópur. Þeim hefur alla vega tekist að koma því til leiðar að Alþingi hefur ákveðið að greiða árlega til þeirra 800 milljónir króna af ríkispeningum í styrki til flokkana. Þessi fjárhæð hefur þrefaldast á þremur árum. Auk þess hafa þeir ákveðið að ríkið kosti 28 aðstoðarmenn fyrir þingmenn. Þarna er á ferðinni hagsmunahópur sem getur bæði krafist verðmæta fyrir sig og ákveðið að verða við eigin kröfum.
Þegar öllu er á botninn hvolft er ekkert óeðlilegt við að allir fyrrgreindir aðilar freisti þess að gæta þeirra hagsmuna sem þeir hafa tekið að sér að gæta.
Í ljósi þess var yfirlýsing seðlabankastjórans í fyrrnefndu viðtali ekkert merkileg. Það er einungis einhliða túlkun á orðum hans sem vekur athygli. Hefði Ásgeir Jónsson talað skýrar, nefnt verkalýðshreyfinguna, atvinnurekendasamtök, sveitarfélög eða önnur sérhagsmunaöfl til sögunnar, þá hefði þessi stormur í vatnsglasi aldrei orðið.